Árleg hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema við Háskóla Íslands fer fram í Háskólabíói í dag. Keppnin gengur út á að þátttakendur hanna og smíða tæki sem leysir fyrirfram ákveðna þraut.

Árleg hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema við Háskóla Íslands fer fram í Háskólabíói í dag. Keppnin gengur út á að þátttakendur hanna og smíða tæki sem leysir fyrirfram ákveðna þraut. Að þessu sinni eru 11 lið skráð til leiks og því búist við harðri og spennandi keppni. „Þessi keppni skipar stóran sess í skemmtanalífi okkar og hefur í raun bæði fræðslu- og skemmtigildi,“ segir Bjarni Ólafur Stefánsson, formaður undirbúningsnefndar. Þá hefur almenningur einnig sýnt henni mikinn áhuga.

„Þetta hefur verið vel sóttur viðburður í gegnum tíðina. Það hefur verið fullur salur eða því sem næst síðustu ár,“ segir hann.

Keppnin hefst í Háskólabíói kl. 13 í dag og er öllum opin.