NÚ hafa stóru viðskiptabankarnir þrír skilað uppgjörum sínum fyrir fjórða ársfjórðung 2007 og þar með allt það ár. Órói á fjármálamörkuðum hefur greinilega haft sitt að segja því afkoman á fjórða ársfjórðungi er mun lakari en árið 2006.

NÚ hafa stóru viðskiptabankarnir þrír skilað uppgjörum sínum fyrir fjórða ársfjórðung 2007 og þar með allt það ár. Órói á fjármálamörkuðum hefur greinilega haft sitt að segja því afkoman á fjórða ársfjórðungi er mun lakari en árið 2006. Munar þar 24,5 milljörðum króna. Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir högnuðust samanlagt um 17 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi samanborið við 41,5 milljarða í sama fjórðungi árið 2006.

Sé afkoma einstakra banka skoðuð dregst hagnaðurinn hlutfallslega mest saman á fjórða ársfjórðungi hjá Glitni, eða um 73%, úr 9,3 milljörðum árið 2006 í 2,5 milljarða á fjórða fjórðungi árið 2007. Hjá Landsbankanum var hagnaður fjórðungsins 4,9 milljarðar borið saman við 14,1 milljarð árið 2006, sem er 65% lakari hagnaður. Fjórði ársfjórðungur skilaði Kaupþingi 9,6 milljörðum í gróða, samanborið við rúma 18 milljarða á sama tímabili árið áður.

Á öllu síðasta ári högnuðust bankarnir um 137,6 milljarða króna, sem er meira en 26 milljörðum króna lakari afkoma en árið 2006 þegar samanlagður hagnaður nam 163,7 milljörðum króna.

Hagnaður Kaupþings í fyrra nam 70 milljörðum, 39,9 milljarðar hjá Landsbankanum og 27,7 hjá Glitni. Árið 2006 nam hagnaður Kaupþings 85,3 milljörðum, rúmum 40 milljörðum hjá Landsbankanum og 38,2 milljörðum hjá Glitni.

Sé litið til heildareigna bankanna þriggja jukust þær um þriðjung milli ára, námu samanlagt 11.352 milljörðum króna í árslok 2007, borið saman við 8.474 milljarða á árinu áður.

Á sama tíma hefur eiginfjárhlutfall bankanna (CAD) farið minnkandi, var kringum 15% í loks árs 2006 en var um áramótin á bilinu 11,2 til 11,8%, hæst hjá Kaupþingi.