Héraðsdómur Suðurlands sýknaði í gær karlmann af því að hafa brotið höfundarréttarlög með því að sýna tvær kvikmyndir um eldgosið í Heimaey án leyfis höfundar, á veitingastaðnum Kaffi Kró í Vestmannaeyjum.

Héraðsdómur Suðurlands sýknaði í gær karlmann af því að hafa brotið höfundarréttarlög með því að sýna tvær kvikmyndir um eldgosið í Heimaey án leyfis höfundar, á veitingastaðnum Kaffi Kró í Vestmannaeyjum. Málavextir voru þeir að Sigurmundur Gísli Einarsson sem rak ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum sýndi sumarið 2004 myndina Uppbyggingin-Eldgosið í Heimaey á veitingastað sínu Kaffi Kró í tvö skipti. Jafnframt sýndi Sigurmundur myndina The Heimaey eruption, Iceland 1973 í nokkur skipti árið 2005. Höfundarréttarhafar myndanna kærðu Sigurmund fyrir sýningarnar til sýslumannsins í Vestmannaeyjum 29. ágúst árið 2005. Ákæra í málinu var hins vegar ekki gefin út fyrr en 18. júlí 2007. Var því sök fyrnd í málinu auk þess sem ekki taldist sannað að Sigurmundur hefði brotið höfundarrétt með sýningu á hluta myndar sem talið var að væri úr The Heimaey eruption.

Málið bara steypa

Sigurmundur segist glaður yfir málalokunum. „Þetta mál var bara steypa. Ég skil ekki að menn skuli eyða tíma í þetta. Við töldum ekki að við værum að brjóta nein lög og hættum sýningum strax og haft var samband við okkur af höfundunum. Við leituðum þá eftir því við þá að fá að sýna þessar myndir en fengum ekki. Mér finnst hins vegar út í hött hvað þetta mál gekk langt. Það væri gagnlegra að nota tímann í alvöru mál, ég hélt að menn hefðu nóg annað að gera hjá dómstólum. Þetta er bara hjákátlegt. Vonandi verður þetta víti til varnaðar.“

freyr@24stundir.is