[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjórða kvikmyndin um Rambó verður frumsýnd í næstu viku. Í tilefni af því bauð Gillzenegger nokkrum hörðum Rambó-aðdáendum á forsýningu í gær.

Eftir Atla Fannar Bjarkason

atli@24stundir.is

„Auddi Blö var með leiðindi um daginn. Hann sagði að Sly [Sylvester Stallone] væri útbrunninn sterahaus og núna er hann að spyrja hvort honum sé ekki boðið. Nei. Ég gleymi ekki svona. Hann er ekki velkominn,“ segir Egill Einarsson, betur þekktur sem Gillzenegger.

Sylvester Stallone snýr aftur sem John Rambó í fjórðu kvikmyndinni um hermanninn í næstu viku. Egill tók forskot á sæluna og bauð ásamt tveimur félögum sínum nokkrum útvöldum Rambó-aðdáendum á forsýningu í Laugarásbíói í gær. „Ég býð ekki frægum gæjum ef þeir eru ekki Sly-aðdáendur. Frekar býð ég ófrægum gæjum sem eru Sly-aðdáendur,“ segir Egill ómyrkur í máli um Auðun Blöndal.

Fjórða kvikmyndin um Rambó hefur vakið mikla athygli vestanhafs fyrir gegndarlaust ofbeldið sem myndin sýnir á afar grafískan hátt. Viðtökur gagnrýnenda hafa verið afar mismunandi, en samkvæmt vefsíðunni Metacritic.com hefur hún fengið að meðaltali 45 af 100 mögulegum. Egill lætur það ekki stöðva sig.

„Þetta er John J. Rambó. Þú ert ekki að fara á þessa mynd til þess að sjá Óskarverðlaunamynd,“ segir hann. „Þú ert að fara til að sjá hasar. Þú ert að fara til að sjá Sly drepa fólk. Er hægt að biðja um eitthvað betra en það? Fyrsti gæinn er drepinn á þriðju mínútu þegar þú ert nýsestur. Sly er að rífa hausinn af mönnum í þessari mynd.“