Amelie Engilberts fæddist 4. nóvember 1934. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir 17. desember síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Fossvogskapellu 2. janúar, í kyrrþey.

Amy Engilberts hefur kvatt, þessi sérstæða kona sem sannarlega bjó yfir ótrúlegri speki. Í henni sameinaðist sterkt innsæi og langt dulspekinám, útkoman varð nákvæmur og fær framtíðar-, já og ekki síðri fortíðarlesari. Árið var 1967 þegar Amy las fyrir mig fyrst. Mér fannst konan strax spennandi. Hún var öðruvísi, hreinskilin, barnsleg, einlæg og vitur, allt í sömu persónunni. Að hlusta á lestur hennar um fæðingardaga, fæðingarstundir, lófa og rithönd, tungl og tölur, var hreint ævintýralega gaman. Andrúmsloftið svo magnað.

Smátt og smátt þróaðist með okkur Amy kær vinátta sem við nutum báðar innilega. Amy var á margan hátt alein í heiminum. Ég dáðist að henni hvernig hún hafði ofan af fyrir sér, fyrir utan mikla og krefjandi vinnu. Hún var dugleg að sækja veitingahús, listviðburði og fara í bíó. Hún varð heimilisvinur hjá okkur, bæði á Sunnuflötinni og í Tryggvagötu, hélt með okkur jól og hátíðir, kom í afmæli og matarboð. Alltaf gaman að hitta hana, því hún hafði frá svo mörgu skemmtilegu og fróðlegu að segja. Sílesandi innlend og erlend blöð. Ávallt opin fyrir því sem var að gerast, ekki bara á Íslandi heldur í Evrópu allri.

Lífið hennar var sveipað dulúð, hún var bæði einfari og félagsvera. Oft talaði hún um föður sinn, Jón Engilberts, listmálarann mikla, sem hún elskaði undurheitt. Eins dvaldi hugurinn oft við glöðu árin í Frakklandi og lífið sem hún átti með gríska manninum sínum, sem var mörgum árum eldri en hún. Vel metinn læknir ríka fólksins og fræga í París. Ég fann hvað hann hafði verið henni mikils virði og hvað hún saknaði hans. Nú er hún farin, þessa sérstæða vinkona mín, Amy Engilberts, sem bjó yfir þeim hæfileika að geta sagt þúsundum ótrúlega nákvæmlega frá lífshlaupi og framtíðarhorfum. Veri hún kært kvödd og góðum Guði falin.

Helga Mattína Björnsdóttir, Grímsey.