Eiríkur Óli Jónsson fæddist á Sveðjustöðum í Húnaþingi vestra 27. febrúar 1922, en fluttist með foreldrum sínum að Neðri-Svertingsstöðum þrem árum síðar. Hann andaðist á Landspítalanum í Fossvogi 19. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Hólmfríður Bjarnadóttir, f. 13.10. 1891, d. 24.4. 1981, og Jón Eiríksson, f. 22.6. 1885, d. 10.2. 1975. Systkini Eiríks eru: 1) Guðfinna, f. 23.4. 1917. Maður hennar var Böðvar Friðriksson (1918-1970). Þau eignuðust sjö börn. 2) Ingunn, (1919-1979). Maður hennar var Bjarni Sig. Bjarnason (1920-1997). Þau eignuðust þrjú börn. 3) Þorgerður, f. 14.8. 1920. Maki hennar var Jón Friðriksson (1918-2007). Þau eignuðust þrjú börn. 4) Bjarni, f. 7.12. 1924. Maki hans var Guðrún Sigurðardóttir, f. 16.7. 1937 og eiga þau þrjú börn. 5) Guðlaug, f. 22.6. 1926. Maður hennar var Ólafur Guðjónsson (1928-1975). Börn þeirra eru fjögur. 6) Snorri, f. 15.5. 1928. Maki hans var Guðrún Gísladóttir, f. 3.6. 1929. Þau eignuðust sex börn. 7) Stefán, f. 6.3. 1930. Maki hans er Esther Garðarsdóttir, f. 29.3. 1935. Þau eiga þrjú börn. 8) Ólafur, f. 27.11. 1931. Maki hans er Lilja S. Frímannsdóttir, f. 12.10. 1938. Þau eignuðust þrjú börn. 9) Gunnlaugur Ragnar, f. 22.1. 1933. Maki hans er Kristrún Ásgrímsdóttir, f. 25.7. 1943. Þau eiga fjögur börn. 10) Ragnheiður Jónsdóttir f. 20.11. 1935. Maður hennar var Ingimar Erlendur Sigurðsson, f. 11.12. 1933. Börn þeirra eru fjögur. Öll systkinabörn Eiríks eru á lífi.

Eiríkur á Svertingsstöðum gerði ekki víðreist um ævina. Hann lifði og starfaði nánast alla sína tíð í sinni sveit, Miðfirðinum, þar sem hann var fæddur og uppalinn. Hann naut þeirrar menntunar sem boðið var upp á í dreifbýli á hans æskudögum, farskóla og fermingarundirbúnings, en hann var elskur að bókum og fylgdist alltaf vel með. Að auki stundaði hann nám í Laugaskóla sem þá var undir stjórn Leifs Ásgeirssonar og bjó lengi að þeirri vist. Hann tók við búi á Svertingsstöðum árið 1964 ásamt Bjarna bróður sínum og fjölskyldu hans þegar foreldrar þeirra hættu búskap og fluttu til Reykjavíkur. Eiríkur var glöggur og natinn skepnuhirðir og átti arðsamt bú og bjó við sauðfé og hross. Hann var hestamaður góður og naut þess, einkum á yngri árum, að eiga gæðinga. Árið 1991 flutti hann sig um set og settist að á Laugarbakka þar sem hann keypti sér einbýlishús: var það honum heillaspor; hann var gestrisinn og góður heim að sækja frændum og vinum..

Útför Eiríks fer fram frá Melstaðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Eiríkur var stóri bróðir minn, hann var elstur af sex bræðrum mínum og líka langstærstur. Frá barnsárum mínum eru margar minningar tengdar Eiríki – hvað ég þurfti að líta hátt upp til að horfa á andlit hans, hvernig hann gat teygt sig eftir hlut sem mér sem mér fannst langt frá, hvað það var spennandi þegar hann tók mig í fangið og lyfti mér hátt upp yfir höfuð sér – það var eins og fara í flugferð. Þegar ég trítlaði með honum um túnið og hann leiddi mig minnist ég þess ég hvað hönd hans var stór og hlý. Ég þurfti alltaf að hlaupa til að hafa við honum því hann var svo skreflangur.

Eiríkur bróðir var ekki hávaðamaður, öll hans framkoma var kyrrlát og fumlaus. Þegar hann stjórnaði okkur yngri systkinum sínum við vinnu, t.d. við heyskap og önnur búverk, gerði hann það ævinlega rólega og hlýlega og með sanngirni, svo okkur öllum fannst sjálfsagt að fara að tilmælum hans. Hann ólst ekki upp við auðveldar aðstæður, var fjórði í röðinni af ellefu systkinum. Það fór því ekki hjá því að mikil ábyrgð og vinna legðist fljótt á hans ungu herðar.

Það var erfitt að framfleyta stóru heimili á þessum tíma og það má gera sér í hugarlund að sár kvíði hafi oft legið í loftinu þó að það væri kannski aldrei orðað. Eiríkur varð fljótt aðalstoðin í búskapnum og búskapur lá reyndar vel fyrir honum, hann var mikið fyrir skepnur, hafði ánægju af að hirða um fé og fórst það mjög vel úr hendi og var einkar laginn við hesta og góður tamningamaður; alla ævi átti hann góða hesta.

Það sem einkenndi störf Eiríks bróður var einstök snyrtimennska og reglusemi. Óvíða hefði mátt finna fjárhús sem jafnvel var gengið um og eins var um hey og hlöður. Þetta voru eiginleikar sem hann sótti í báðar ættir. Foreldrar okkar, þó að ólík væru um margt, voru samvalin í því að halda öllu úti sem inni í röð og reglu og fara vel með alla hluti. Þegar við systkini Eiríks og frændfólk komum við hjá honum á Laugarbakka var ævinlega allt í röð og reglu og hann tók glaður á móti gestum. Eiríkur hafði ekki létta lund, var alvörugefinn og í raun bæði feiminn og viðkvæmur og það varð til þess að hann dró sig oft í hlé þó að hann hefði í raun nóg til mála að leggja. En hann eignaðist samt góða vini og þeim sem náðu að kynnast honum þótti vænt um hann. Hann gat líka verið glaður á góðri stund og mér er það sérlega minnisstætt, alveg frá því ég var unglingur, hvað mér fannst hann fallegur þegar hann var glaður og hýran blikaði í augunum á honum. Mér fannst hann reyndar alltaf fallegur, með sitt þykka dökkbrúna hár sem fór svo vel, stórt nefið sem mér fannst svo glæsilegt og reglulega andlitsdrætti.

Eiríkur hafði alltaf mjög gaman af að syngja. Hann hafði bjarta rödd og var mjög lagviss. Og þegar þeir bræður hittust eða í góðra vina hópi var oft sungið mikið, ekki síst ef þeir höfðu sopið aðeins á söngvatni! Eiríkur fylgdist vel með þjóðmálum, las mikið meðan hann hafði orku til en ljóð stóðu hug hans næst. Ég kveð Eirík bróður minn með söknuði en þakklæti í hjarta, hann var mér bæði vinur og góður bróðir.

Ragnheiður Jónsdóttir.

Eiríkur ólst upp á Neðri-Svertingsstöðum ásamt tíu systkinum sínum. Hann tók við búi foreldra sinna ásamt Bjarna bróður sínum og þeir voru með sauðfé og hross en Eiríkur hafði sérstaklega mikinn áhuga á hrossum og hrossarækt.

Árið 1991 flutti hann á Laugarbakka en þá tók Ingi sonur Bjarna við búinu. Eiríkur hélt þó áfram að vera með fé og hross, eingöngu hross síðustu árin, og keyrði hann á hverjum degi að Svertingsstöðum til að huga að skepnunum, enda bóndi af lífi og sál.

Það var einmitt í þessari daglegu vitjun sem hann lenti í bílslysi og var fluttur með þyrlu til Reykjavíkur mikið slasaður. Viku síðar lést hann á Landspítalanum.

Fjölskyldan mín er mikið í hestamennsku og þegar ég var lítil var pabbi með hross frá Eiríki á húsi og þau hross voru oftar en ekki aðalgæðingarnir í húsinu. Nú seinni ár höfum við aðallega fylgst með hrossunum hans í tamningu ásamt Gunnlaugi og Stefáni bræðrum hans og Eika syni Gunnlaugs og látið hann vita hvernig gengi með þau. Síðasta ár eignaðist ég tvo hesta frá Eiríki, annan fékk ég að gjöf en hinn keypti ég. Einnig gaf hann systur minni hest en hann var mjög ánægður með hestaáhuga okkar.

Er Eiríkur flutti á Laugarbakka og fór að búa einn þá gaf Snorri afi honum matreiðslubók sem heitir því skemmtilega nafni: Unga stúlkan og eldhússtörfin. Hann hefur líklega lært eitthvað af henni enda orðinn mjög góður í að elda hafragraut, sveskjugraut, ávaxtagraut og kartöflumús, svo sauð hann oft saltkjöt með.

Hann var mikill snyrtipinni, alltaf voru hlutirnir í röð og reglu og allt hreint. Garðurinn yfirleitt í mjög góðu standi en afi Snorri var afar duglegur við að hjálpa honum á þeim vettvangi.

Þegar við fjölskyldan fórum að heimsækja hann, sem við gerðum nokkuð oft á ári, þá eldaði mamma alltaf lambalæri á gamaldags hátt; með brúnuðum kartöflum, sultu, grænum baunum og rauðkáli. Henni datt ekki í hug að bjóða honum upp á eitthvað framandi eða eitthvað grænt því það fannst honum ekki gott. Eitt eftirminnilegt atvik átti sér stað eitt sinn við matarborðið. Mamma gaf Eiríki rauðvín og hann fékk sér sopa og sagði: ,,Þetta er vont.'' Svo vorum við að ganga frá og rauðvínskannan var enn rúmlega hálffull en þá sá hann kaffibolla með gömlu kaffi í og hellti því út í rauðvínskönnuna enda þótti honum þetta bölvaður óþverri.

Alltaf var gaman að koma til Eiríks eða Eireks eins og systkini mín kölluðu hann og iðulega fengu vinir eða vinkonur okkar systkinanna að koma með og fannst þeim það mjög skemmtilegt. Það var sérstaklega skemmtilegt að koma þegar var verið að rétta í Miðfjarðarrétt og þá komu Stefán, Laugi og Eiki yfirleitt líka. Þá var glatt á hjalla og eftir nokkur glös var Eiríkur gamli farinn að syngja Sofðu unga ástin mín og jafnvel voru stigin dansspor.

Ég vil þakka Eiríki fyrir samfylgdina og á ég eftir að sakna þess að geta ekki heimsótt hann oftar.

Bryndís Snorradóttir.

„Þú ert alveg eins og hann Eiríkur frændi þinn“ var stundum sagt við mig á bernsku- og byrjandi unglingsárum þegar ofvöxtur hafði hlaupið í skrokkinn. Ég þótti vera langur og álappalegur, fætur og handleggir teygðu sig langt út frá búknum, barnslegt andlit og bólugrafið klætt stækkandi nefi og svo átti ég það til að draga úr ofvextinum með því að beygja bakið fram og keyra herðarnar niður. Við vorum að einhverju leyti hliðstæður. Enda skyldir. Báðir langir og mjóir. Hann kominn til manns en ég að vaxa úr grasi. Nú hefur hann kvatt og þrátt fyrir allt, nokkuð sviplega. Er við hæfi að minnast hans í ljóði Guðmundar Böðvarssonar, Falið í grasi úr ljóðabókinni Minn guð og þinn:

Þú færð að sofa er vorsins vörmu hendur

vagga í gælni og rælni stráum ungum

og ljósgrænn stararsprotinn talar tungum

við tjarnarvatnið blátt,

en drottins sól, á degi mikils friðar,

hún dregur örþunn slæðutjöld til hliðar:

ó hafið ekki hátt,

Föðurbróðir minn Eiríkur Jónsson frá Svertingsstöðum var bóndi af bestu gerð, fylgdi ekki tækninýjungum af sérstakri ástríðu heldur því sem aðstæðurnar og skynsemin sögðu honum, jarðbundinn og íhaldssamur en um leið róttækur í bestu merkingu þeirra orða. Hann stóð fyrir búi alla sína starfsævi en eignaðist hvorki konu né börn heldur má segja að hann hafi gengið að eiga jörðina og þær skepnur sem hann fóstraði. Eiríkur var hógvær maður og stilltur í fasi. Hann dró frekar úr en að ýkja, sagði færra að fyrra bragði, var þeirrar gerðar að leggja frekar út af fullyrðingum annarra en að halda sínum á lofti. Hógværðin birtist í orðum hans og atgervi, hvernig hann heilsaði og kvaddi með hægð, rómurinn lágur en röddin djúp og hans stóru og gripsterku hendur sem vitnuðu um vinnusemi og trúmennsku voru unglingspilti og fullorðnum manni alltaf hlýjar og notalegar viðkomu.

Á uppvaxtarárunum við lækinn í Hafnarfirði vissi ég alltaf af þessum frænda mínum norður í Miðfirði. Við hittumst reyndar sjaldan en þó stöku sinnum. Þá þótti mér hann vera grannur, sterklegur og hávaxinn. Nú þykir mér hann hafa verið stórglæsilegur, á gömlum ljósmyndum rakandi í teignum eða uppstilltur ásamt systkinum sínum við nýbyggðan bæinn. Síðar lágu leiðir okkar saman þegar ég var sendur í sveit að Syðri-Völlum, bæjarstrákur í fyrsta sinn sendur einn út í heim og hafði aldrei slegið í afturenda á belju eða stokkið yfir afrennslisskurð, hvað þá mokað flór eða snúið heyi. Þá kom Eiríkur frændi í heimsókn og það þótti mér vænt um. Í gegnum símann fæ ég þau skilaboð að hann vilji hitta mig, sjá hvernig ég hef það í sveitinni og á hlaðinu réttir hann mér höndina, dregur fram pípuna og eftir kaffi og samræður að íslenskum sveitasið er að lokum kominn tími til að kveðjast með litlum látum en kærri þökk:

og hratt og kyrrlátt yfir undirlendi

og allt til miðra hlíða skugga vefur

af litlu skýi. Hljóður hreyfir við

hárlokkum þínum góður blær.

Þú sefur.

Falið í grasi, fallið þér úr hendi,

þitt gamla leikfang liggur þér við hlið.

Jón Özur Snorrason.