Bílasala á Íslandi hefur verið í stöðugri uppsveiflu undanfarin ár. Svo virðist sem versnandi veður hafi ekkert nema góð áhrif á bílakaupendur.

Eftir Einar Elí Magnússon

einareli@24stundir.is

Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum að janúarmánuður hefur verið kaldur og snjóþungur, ef miðað er við fyrri ár. Þrátt fyrir það hefur verið 30-40 prósent aukning í bílasölu í janúar, ef miðað er við sama mánuð í fyrra.

Ákveðnari kaupendur

„Mesta salan er í fjórhjóladrifnum bílum, jeppum og jepplingum,“ segir Jón Trausti Ólafsson, markaðsstjóri Heklu. „Það hefur hægst á traffíkinni og heimsóknir eru færri, en þeir viðskiptavinir sem koma eru mjög ákveðnir. Þeir berjast í gegnum skaflana og snjóinn og eru mjög ákveðnir í að kaupa sér bíla.

Þó talað sé um að efnahagurinn sé að dragast saman er fólk búið að stilla sig inn á ákveðnar greiðslur á mánuði og er tilbúið til að kaupa sér bíl. Veðrið dregur ekki úr þeim en breytir því kannski hvað fólk kaupir. Þess vegna er meiri sala í jeppum núna,“ segir Jón Trausti.

Veðrið hentar okkur

Í sama streng tekur Loftur Ágústsson, markaðsstjóri Ingvars Helgasonar. „Í fjórhjóladrifnum bílum á verðinu 2,5-3,5 milljónir erum við langsterkastir og svona veðrátta hentar okkur mjög vel.

Það er ekki spurning að í svona veðurfari er meiri áhugi á fjórhjóladrifsbílum og ekki eins margir að leita að þessum vorbílum, sem eru minni bílar, enda búum við ekki við stórborgarvandamál eins og víða erlendis,“ segir Loftur og bætir við að bílamarkaðurinn á Íslandi hafi mjög lítið breyst á síðustu tuttugu árum þegar kemur að því hvað fólk vill.

„Næstu tíu ár koma til með að einkennast af baráttu um sparneytni og hagkvæmni. Maður finnur að fókusinn er allur á því.“

Áfram fjórhjóladrifsbílar

Jón Trausti er á sama máli og bætir við að Íslendingar muni áfram kaupa fjórhjóladrifsbíla. „Íslendingar eru mikil fjórhjóladrifsþjóð, sem er bara skiljanlegt. Aðstæður hér eru þannig að það hentar mjög vel fyrir marga að eiga fjórhjóladrifinn bíl.

Fólk á því eftir að fá sér fjórhjóladrifna bíla sem eru sparneytnir, hagkvæmir í rekstri og öruggir. Ég hef mikla trú á að metangasbílar komi sterkir inn á næstu árum en held að Íslendingar stækki ekki mikið við sig í minni bílum, fari frekar í betri og öruggari bíla.“