Eftir Albert Örn Eyþórsson albert@24stundir.is Það má líkja þessu við að Tiger Woods hætti í golfi. Eftir verða hundruð góðra kylfinga en enginn þeirra kemst með tærnar þar sem Woods hefur hælana í hreinu aðdráttarafli.

Eftir Albert Örn Eyþórsson

albert@24stundir.is

Það má líkja þessu við að Tiger Woods hætti í golfi. Eftir verða hundruð góðra kylfinga en enginn þeirra kemst með tærnar þar sem Woods hefur hælana í hreinu aðdráttarafli. Þess vegna eru blendnar tilfinningar hjá áhugamönnum yfir því að Oscar de la Hoya, gulldrengurinn sjálfskipaði, hætti keppni eftir árið. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að þangað til ætlar hann að berjast þrívegis.

Eftirsjá

Hversu mjög sem margir hafa horn í síðu Hoya, sem nánast einn síns liðs gerði hnefaleikara að kyntáknum og breytti kynjaáhorfi á hnefaleikabardaga umtalsvert, er engum blöðum um það að fletta að Hoya er frábær hnefaleikari og bardagar hans jafnan skemmtilegir. Fékk hann talsvert skítkast frá gömlum hundum í bransanum er í ljós að konur sem löngum hafa aðeins verið milli 20 og 30 prósent áhorfenda á hnefaleika juku áhorf sitt umtalsvert þegar Hoya steig í hringinn.

Stærsti bardagi ársins

Sú ákvörðun Hoya að taka aftur slaginn við Floyd Mayweather er ekki endilega byggð á hefnigirni. Síðasti bardagi þeirra sem Hoya tapaði eftir ákvörðun dómara reyndist tekjuhæsti viðburður nokkru sinni í sportinu og Hoya fékk þar umtalsvert meira útborgað en Mayweather þrátt fyrir tapið. Sama verður uppi á teningnum nú og áhuginn líklega enn meiri þegar ljóst er að Hoya hendir hvíta handklæðinu í árslok.

Í desember ætlar kappinn svo að taka lokaslag að nafninu til. Hvort það verður nettur heiðursslagur eða hvort alvöru andstæðingur mætir til leiks veltur á útkomunni úr slagnum við Mayweather.

Í hnotskurn
Maí Hoya mun taka upp hanskana, að líkindum gegn Steve Forbes í Mexíkó. Úrslitin þykja fyrisjáanleg enda bardaginn hugsaður til að Hoya komist í form fyrir bardagann gegn Mayweather. September Hoya mætir Floyd Mayweather en þeim bardaga tapaði Hoya fyrir ári. Tapið í hringnum skipti litlu enda varð gróðinn í bankanum því meiri en Hoya fékk tvöfalt meira fyrir bardagann en Mayweather. Desember Hoya tekur sinn síðasta bardaga á ferlinum. Óvíst hver er andstæðingurinn.