Björgólfur Thor Björgólfsson
Björgólfur Thor Björgólfsson
NOVATOR, fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur selt 10,12% hlut sinn í gríska fjarskiptafélaginu Forthnet en á sama tíma hefur félagið keypt 23,4% hlut í pólska símafyrirtækinu P4, sem rekur þriðju kynslóðar símaþjónustu undir nafninu...

NOVATOR, fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur selt 10,12% hlut sinn í gríska fjarskiptafélaginu Forthnet en á sama tíma hefur félagið keypt 23,4% hlut í pólska símafyrirtækinu P4, sem rekur þriðju kynslóðar símaþjónustu undir nafninu PLAY.

Hluturinn í pólska félaginu var áður í eigu símafélagsins Netia sem er skráð félag í kauphöllinni í Varsjá og er Novator jafnframt stærsti einstaki hluthafinn í því félagi. Eftir þau viðskipti á Novator 75% í P4 og pólska félagið Germanos 25%.

Samkvæmt upplýsingum frá Novator eru ástæður viðskiptanna þær að vonir um ávinning af fyrirhuguðu samstarfi og samruna hefðbundins símafyrirtækis og þriðju kynslóðar símafyrirtæki hafi orðið að engu. Sé það skoðun eigenda P4 og stjórnenda Netia að farsælla sé að reka fyrirtækin aðskilin og slíta á bein eignatengsl.

Gengi bréfa Netia hækkaði umtalsvert í kauphöllinni í Varsjá eftir að tilkynnt hafði verið um þessi viðskipti.

Fyrr í vikunni tilkynnti Novator að finnski armur félagsins hefði aukið hlut sinn í íþróttavöruframleiðandanum Amer Sports Corporation og sé hlutur Novators í því félagi nú 20,3%. Novator ræður nú yfir eignum sem metnar eru á um sjö milljarða evra, um 680 milljarða króna á núvirði.