Í kóngslíki Walk Hard leiðir áhorfendur í gegnum tónlistarsöguna.
Í kóngslíki Walk Hard leiðir áhorfendur í gegnum tónlistarsöguna.
Grínmyndin Walk Hard verður frumsýnd í dag, en í aðalhlutverki er konungur aukahlutverkanna, John C. Reilly, sem margir kannast við úr Days of Thunder, Boogie Nights, Magnolia, Gangs of New York, The Aviator og Talladega Nights, svo fáeinar séu nefndar.
Grínmyndin Walk Hard verður frumsýnd í dag, en í aðalhlutverki er konungur aukahlutverkanna, John C. Reilly, sem margir kannast við úr Days of Thunder, Boogie Nights, Magnolia, Gangs of New York, The Aviator og Talladega Nights, svo fáeinar séu nefndar. John leikur Dewey Cox í myndinni, sem er í raun blanda af Elvis, Ray Charles, Johnny Cash og Bob Dylan og er sagan ekkert ósvipuð lífshlaupi Johnny Cash, nema mun fyndnari. Töluvert er um nekt í myndinni, sem John fannst í fyrstu frekar óþægilegt. „Í einu atriðinu var ég með ósvikið karlamannstyppi steinsnar frá andlitinu sem var ekki góð tilfinning í fyrstu. En síðan vandist þetta, því það eru mörg nektaratriði í myndinni. Og eigandi reðursins, Tyler, er góður gæi og var mjög afslappaður, sem hjálpaði mér líka. Þá er maður auðvitað vanur að sjá svona lagað í karlaklefanum og því kom þetta mér ekki í uppnám,“ sagði John í nýlegu viðtali í tilefni frumsýningar myndarinnar. John er eitt af kunnuglegustu andlitunum í Hollywood, en aldrei hefur hann leikið aðalhlutverk í kvikmynd af slíkri stærðargráðu fyrr. „Það er svolítið skrítið að sjá andlitið á sér úti um allan bæ á risastórum auglýsingaskiltum. Sem betur fer eru þau ekki mörg á þeirri leið sem ég fer í vinnuna, en vinir og ættingjar eru alltaf að minnast á þetta. Auðvitað er þetta skrítin tilfinning, en maður vandist þessu svolítið í upptökum, því persóna mín í myndinni er nafli alheimsins má segja, allt snýst í kringum hana. En auðvitað er gaman að vera svona í sviðsljósinu til tilbreytingar, ég neita því ekki,“ sagði Reilly af lítillæti. Gestaleikarar í myndinni eru ekki af verri endanum. Jack Black leikur bítilinn Paul McCartney, aðalsprauta The White Stripes, Jack White, leikur Elvis Presley og þá koma The Temptations fyrir í myndinni einnig. Fyrirfram má búast við miklum hlátrasköllum, enda framleiðendurnir hinir sömu og færðu okkur Knocked Up, The 40 Year Old Virgin og Superbad, sem allar slógu rækilega í gegn hér á landi. traustis@24stundir.is