— Árvakur/Golli
Eftir Hlyn Orra Stefánsson hlynur@24stundir.is Ekki er hægt að ætlast til þess að fasteignasali gæti bæði hagsmuna kaupenda og seljanda, þrátt fyrir að lög kveði á um að svo skuli vera. Þetta segir Guðfinna J.

Eftir Hlyn Orra Stefánsson

hlynur@24stundir.is

Ekki er hægt að ætlast til þess að fasteignasali gæti bæði hagsmuna kaupenda og seljanda, þrátt fyrir að lög kveði á um að svo skuli vera. Þetta segir Guðfinna J. Guðmundsdóttir fasteignalögfræðingur, sem rekur kaupendaþjónustu hjá Fasteignamál lögmannsstofu.

„Við bjóðum kaupendum fasteigna að koma í viðtal til okkar áður en þeir kaupa eign, förum yfir með þeim hvaða spurninga þurfi að spyrja og hvaða gögn þurfi að skoða,“ segir Guðfinna. „Svo bjóðum við fólki líka upp á aðstoð við tilboðsgerðina og mætum með því í kaupsamningagerð og við afsal.“

Fara ekki að lögum

Í lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, 15. grein, segir að fasteignasali skuli „liðsinna báðum aðilum, seljanda og kaupanda, og gæta réttmætra hagsmuna þeirra.“

Þrátt fyrir að lögin séu skýr segir Guðfinna raunina vera þá að hagsmunir kaupenda fái ekki jafn mikið vægi og hagsmunir seljenda. „Fasteignsali er settur í þá stöðu að hann fær mikinn meirihluta tekna sinna frá seljandum. Ég velti því oft fyrir mér hvernig í ósköpunum fasteignasalar eigi að geta gætt hagsmuna beggja aðila að fasteignaviðskiptunum, þegar annar borgar honum en hinn ekki.

Mín skoðun er sú, og sama gildir um marga fasteignasala sem ég hef rætt við, að fráleitt sé að sami einstaklingur gæti hagsmuna beggja aðila, á sama hátt og fráleitt væri að sami lögmaður gætti hagsmuna tveggja einstaklinga sem deila.“

Guðfinna segist ekki telja að fasteignasalar gefi meðvitað hagsmunum seljenda meiri gaum en hagsmunum kaupenda. Hins vegar þyrftu fasteignasalar að setjast niður með kaupandanum áður en gert er tilboð í eign, fara yfir söluyfirlitið og ástandið á húsinu með honum og hvað gera skuli ef í ljós kemur galli, til að gæta jafnt að hagsmunum beggja aðila. Það geri þeir hins vegar yfirleitt ekki.

„Það ætti að vera í lögum hér, eins og t.d. í Danmörku, að kaupandi verði að vera með sérstakan löggiltan fasteignasala eða lögmann með sér í gegnum kaupferlið,“ segir Guðfinna.

Viljum redda hlutunum eftir á

Boðið hefur verið upp á kaupendaþjónustu hjá Fasteignamál lögmannsstofu í um þrjú ár. „Það eru alltaf einn og einn sem nýtir sér þjónustuna, en ekki margir. Við Íslendingar erum ekkert sérstaklega mikið fyrir fyrirbyggjandi aðgerðir; við viljum frekar redda hlutunum þegar allt er komið í voll. En þá er orðið miklu erfiðara og dýrara að leysa úr hlutunum.“
Í hnotskurn
15. gr. Fasteignasali skal ... liðsinna báðum aðilum, seljanda og kaupanda, og gæta réttmætra hagsmuna þeirra.