Talsmaður Abu Laith al-Libi kom fram á myndböndum al-Qaeda.
Talsmaður Abu Laith al-Libi kom fram á myndböndum al-Qaeda. — Reuters
Dubai. AFP, AP. | Einn af helstu foringjum al-Qaeda í Afganistan, Abu Laith al-Libi, féll í árás í Pakistan nýlega, að því er fram kom í tilkynningu sem birt var í gær á vefsetri sem al-Qaeda hefur notað.

Dubai. AFP, AP. | Einn af helstu foringjum al-Qaeda í Afganistan, Abu Laith al-Libi, féll í árás í Pakistan nýlega, að því er fram kom í tilkynningu sem birt var í gær á vefsetri sem al-Qaeda hefur notað.

Breska ríkisútvarpið, BBC , sagði að vestrænir embættismenn hefðu staðfest að al-Libi hefði fallið.

Al-Libi fæddist í Líbýu árið 1941 og var lengi leiðtogi líbýskrar hreyfingar sem barðist gegn leiðtoga landsins, Muammar Gaddafi.

Al-Libi var talsmaður al-Qaeda í Afganistan og kom fram á nokkrum myndböndum frá hryðjuverkasamtökunum. Á myndbandi, sem birt var í nóvember, sást hann við hlið Aymans al-Zawahri, næstæðsta leiðtoga al-Qaeda. Al-Libi tilkynnti á einu myndbandanna árið 2002 að Osama bin Laden og leiðtogi talibana, múllann Ómar, hefðu lifað af innrás bandarískra hersveita í Afganistan.

Al-Libi er á lista yfir þá tólf menn sem bandarísk yfirvöld leggja mesta áherslu á að handtaka eða fella. Þau telja líklegt að hann hafi skipulagt sprengjuárás á bandaríska herstöð í Afganistan fyrir tæpu ári þegar Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, var þar í heimsókn. Árásin kostaði 23 lífið.

Líklegt þykir al-Libi hafi beðið bana í flugskeytaárás á mánudag á landamærasvæði í Pakistan þar sem liðsmenn al-Qaeda hafa leikið lausum hala. Hermt er að alls hafi tólf menn beðið bana í árásinni. Íbúar á svæðinu segja að mannlaust loftfar, líklega bandarískt, hafi skotið flugskeytinu.