Áburður Bændur standa frammi fyrir miklum hækkunum á áburðarverði.
Áburður Bændur standa frammi fyrir miklum hækkunum á áburðarverði. — Árvakur/RAX
Eftir Egil Ólafsson egol@mbl.is ÞRÍR stærstu kostnaðarliðir við rekstur kúabúa, áburður, kjarnfóður og fjármagnskostnaður, hafa hækkað mikið á síðustu misserum og hefur afkoma búanna því stórversnað.

Eftir Egil Ólafsson

egol@mbl.is

ÞRÍR stærstu kostnaðarliðir við rekstur kúabúa, áburður, kjarnfóður og fjármagnskostnaður, hafa hækkað mikið á síðustu misserum og hefur afkoma búanna því stórversnað. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda, segir að það sé ekkert annað í spilunum en að velta þessum hækkunum út í verðlagið.

Undanfarna daga hafa innflytjendur á áburði verið að birta verð. Baldur Helgi segir að um 60% af þeim áburði sem kúabændur noti séu áburðarblöndur, en verð á þeim hefur hækkað um 70-80% frá síðasta ári. Verð á Kjarna, sem er hreint köfnunarefni, hækkar hins vegar langminnst eða um 33%. Það kann að vera að einhverjir bændur reyni að kaupa ódýrari áburð og nýta betur húsdýraáburð, en slíkur sparnaður er hins vegar varasamur þegar um nýræktir er að ræða því það getur leitt til þess að grasuppskera bregðist og túnin gangi fyrr úr sér.

Meðalkúabú keypti á síðasta ári áburð fyrir rúmlega 900 þúsund kr., en miðað við 70% hækkun verður þessi kostnaður ekki undir 1,7 milljónum á þessu ári. Kostnaður margra af stærri búunum mun hækka um meira en eina milljón á þessu ári.

Verð á fóðri hefur einnig verið að hækka. Á einu ári er hækkunin um 25%, en síðustu tveimur árum hefur fóðurverð hækkað um 40-50%.

Þá hefur fjármagnskostnaður hækkað gríðarlega mikið á síðustu misserum. Þetta kemur illa við bændur sem staðið hafa í fjárfestingum á seinni árum, en þeir eru fjölmargir. Þetta kemur líka illa við bændur sem þurfa nú að taka lán á um 20% vöxtum til að kaupa áburð. Sömuleiðis hefur olíuverð hækkað, en olía er þó lítill hluti af kostnaði við búrekstur í samanburði við hina liðina, áburð, fóður og vexti.

Kemur enn verr við sauðfjárbændur

Hækkun á áburði kemur illa við kúabændur, en kemur þó enn verr við sauðfjárbændur vegna þess að áburður er stærri hluti af rekstrarkostnaði sauðfjárbúa. Verð á áburði hefur ekki bein áhrif á rekstur svína- og kjúklingabúa, en þar er fóðurverð ráðandi þáttur í rekstrarkostnaði. Verð á kjöti hefur verið að hækka og mjólkurafurðir hækkuðu um áramót. Útlit er hins vegar fyrir enn meiri hækkanir á bæði kjötvörum og mjólk.