Í upphafi Sálin hans Jóns míns í sinni upprunalegu mynd í maí árið 1988. Frá vinstri: Rafn Jónsson trommuleikari, Guðmundur Jónsson gítarleikari, Stefán Hilmarsson söngvari, Jón Ólafsson hljómborðsleikari og Haraldur Þorsteinsson bassaleikari.
Í upphafi Sálin hans Jóns míns í sinni upprunalegu mynd í maí árið 1988. Frá vinstri: Rafn Jónsson trommuleikari, Guðmundur Jónsson gítarleikari, Stefán Hilmarsson söngvari, Jón Ólafsson hljómborðsleikari og Haraldur Þorsteinsson bassaleikari.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson jbk@mbl.is EIN vinsælasta hljómsveit landsins, Sálin hans Jóns míns, fagnar 20 ára afmæli sínu á þessu ári, og stendur mikið til af því tilefni. Ekki er nóg með að sveitin hafi boðað til stórtónleika í Laugardalshöll 14.

Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson

jbk@mbl.is

EIN vinsælasta hljómsveit landsins, Sálin hans Jóns míns, fagnar 20 ára afmæli sínu á þessu ári, og stendur mikið til af því tilefni. Ekki er nóg með að sveitin hafi boðað til stórtónleika í Laugardalshöll 14. mars, heldur er einnig verið að vinna að heimildarmynd um sveitina ástsælu. „Fókusinn er á sögu sveitarinnar, alveg fram að þessum stórtónleikum sem verða þá lokapunkturinn í myndinni,“ segir Jón Egill Bergþórsson kvikmyndagerðarmaður sem stjórnar gerð myndarinnar, sem er komin nokkuð vel á veg.

Jón segist hafa fylgst með sveitinni lengi vel. „Fáir hafa komist hjá því að hlusta á þá, fylgjast með þeim og hrífast af vissum lögum. En ég gerði líka þátt með þeim sem hét Þessi þungu högg , mig minnir að það hafi verið 1992. Þá tengdist ég þeim svolítið, og varð því fyrir valinu fyrir þessa mynd.“

Aðspurður segir Jón þetta mjög spennandi verkefni. „Þetta er svo stór hljómsveit, eitt stærsta band sem við eigum, og 20 ára ferill hennar. Það er gríðarlega mikið myndefni til því þeir hafa verið mjög vinsælir í hinum ýmsu sjónvarpsþáttum í gegnum tíðina,“ segir Jón.

Í myndinni verður því fléttað saman bæði gamalt og nýtt myndefni, auk þess sem tekin verða viðtöl við meðlimi Sálarinnar og aðra sem tengjast henni með einum eða öðrum hætti. Gert er ráð fyrir því að myndin komi út í haust, og komi þá út á DVD samhliða viðhafnarútgáfu á vinsælustu lögum sveitarinnar, „greatest hits“. Þá er ekki ólíklegt að myndin verði sýnd í sjónvarpi.

Auk myndarinnar er svo verið að leggja frumdrög að bók um Sálina hans Jóns míns, og mun hún geyma sögu hennar, myndir og ýmsan fróðleik annan.

Ball á sterum

Eiginlegur afmælisdagur Sálarinnar er 10. mars, en þar sem hann ber upp á mánudag að þessu sinni var ákveðið að halda tónleikana föstudagskvöldið 14. mars. Óhætt er að segja að mikið verði um dýrðir á tónleikunum, enda öllu til tjaldað. Sálarmönnum til halds og trausts verða blásarar, strengjasveit, gospelkór og fleiri aðstoðarmenn, auk þess sem óvæntir gestir munu stíga á svið. „Þetta verða ekki of formlegir tónleikar, heldur nálgumst við málið með svipuðum hætti og við erum vanir,“ segir Stefán Hilmarsson, söngvari sveitarinnar. „Andrúmsloft verður því frjálslegt og vonandi passlega villt. Engin sæti verða á gólfinu, sviðið verður frambyggt og rampur lagður fram á gólf. Við viljum að fólk verði sem léttast og frjálslegast og e.t.v. má segja að ætlunin sé að ná fram stemningu sem líkja mætti við „sveitaball á sterum“,“ segir Stefán kíminn.

Miðasala á tónleikana hefst í dag, og fer hún fram á midi.is. Miðaverð er lægra en gengur og gerist á tónleika sem þessa, eða 5.000 krónur í stúku og 4.000 krónur í sal. „Þetta er auðvitað rándýrt fyrirtæki, en við lögðum þó upp með það að hafa miðaverð eins lágt og auðið væri, svo sem flestir sæju sér fært að mæta,“ segir Stefán að lokum.