Stuðningur Íslendingar létu verðlag í Noregi ekki slá sig út af laginu við að styðja við bakið á landsliðinu á EM.
Stuðningur Íslendingar létu verðlag í Noregi ekki slá sig út af laginu við að styðja við bakið á landsliðinu á EM. — Árvakur/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NORÐMENN eru ánægðir með hvernig til tókst við að halda Evrópumeistaramótið í handknattleik karla sem lauk á sunnudaginn með glæstum sigri frænda vorra Dana. Þeir eru vanir að halda stórmót af þessu tagi í kvennaflokki og renndu því ekki blint í sjóinn.

NORÐMENN eru ánægðir með hvernig til tókst við að halda Evrópumeistaramótið í handknattleik karla sem lauk á sunnudaginn með glæstum sigri frænda vorra Dana. Þeir eru vanir að halda stórmót af þessu tagi í kvennaflokki og renndu því ekki blint í sjóinn. Reyndar vonuðust þeir eftir betri árangri eigin landsliðs. Gestir sem komu á mótið urðu hins vegar óþægilega varir við að gullgrafarastemning gerði vart við sig hjá Norðmönnum og þótti sumum nóg um þar sem verðlag á flestri vöru og þjónustu er síst lægra í Noregi en hér á landi.

Eftir að hafa farið sem blaðamaður á nokkur stórmót í handknattleik á síðustu árum er ljóst að þótt eitt og annað hafi heppnast vel hjá Norðmönnum nú þá jafnast ekkert á við heimsmeistaramótið sem haldið var í Þýskalandi fyrir ári. Enda var það mál manna í mótslok að hvergi ætti að halda stórmót í handknattleik annars staðar en í Þýskalandi. Að vísu kölluðu margir þá keppni hraðbrautamótið vegna þess hversu miklar vegalengdir voru á tíðum milli keppnisstaða sem þýddi talsverð ferðalög fyrir keppendur og gesti. En hvergi hefur stemningin verið betri en á HM í Þýskalandi né aðsóknin meiri. Miðaverði var stillt í hóf, aðalatriðið var að fá fólk í íþróttahallirnar. Það var t.d. einstök upplifun að vera meðal áhorfenda á viðureign Íslands og Ástralíu í Bördelandhalle í Magdeburg að viðstöddum 8.000 áhorfendum sem héldu uppi miklu fjöri á áhorfendapöllunum frá upphafi til enda leiks, af þessum 8.000 áhorfendum voru 7.600 Þjóðverjar sem lifðu sig inn í leikinn af lífi og sál.

Norðmenn fóru allt aðra leið en Þjóðverjar. Þeir verðlögðu miðana hátt, líkt og gert var hér á landi á HM 1995, með þeim afleiðingum að ekki var almennur áhugi fyrir leikjum keppninnar. Í Þrándheimi þar sem íslenska landsliðið lék kostaði allt upp í 450 nkr., rúmlega 5.400 krónur fyrir þrjá leiki, en ekki var hægt að kaupa sig inn á einstaka leiki. Verðið fældi marga frá þar sem nær enginn áhugi er fyrir karlahandknattleik er á svæðinu. M.a. las ég viðtal við Spánverja búsettan í Þrándheimi í staðarblaðinu Adresseavisen . Hann sagðist hafa frétt fyrir slysni að spænska landsliðið væri að leika í Þrándheimi og ákvað að bregða sér á leik. Þegar hann komst að verðinu hætti hann við. Sömu sögu er að segja af mörgum öðrum Þrándheimsbúum enda var staðreyndin sú að ekki komu nema rúmlega 1.000 manns á hvern keppnisdag í milliriðlakeppninni í Þrándheimi í keppnishúsi sem tók fjórum sinnum fleiri áhorfendur.

Margir Íslendingar

Íslendingar voru einna duglegastir þjóða að mæta á leiki keppninnar. Talið er að 400 til 500 Íslendingar hafi komið á riðlakeppninni. Áhuginn datt niður þegar kom að milliriðlakeppninni. Til þess var tekið í samtölum við mótshaldara í staðarblaðinu hversu stórt strik í reikninginn slakur árangur íslenska landsliðsins hafði á aðsóknina. Reiknað hafði verið með ekki færri Íslendingum í milliriðlana ef vel gengi.

Þjóðverji einn sagði mér að yfirleitt væri hægt að teysta á að um 1.000 landar hans fylgdu landsliðinu á mót sem þetta. Það hafi lengi verið venjan. Allra síst áttu menn von á færri Þjóðverjum nú en áður þar sem þýska landsliðið er heimsmeistari. Niðurstaðan varð sú að um 200 Þjóðverjar komu til Bergen í riðlakeppninni og eitthvað færri sem skiluðu sér til Þrándheims í milliriðla. Ástæðurnar voru þessar; langt og dýrt ferðalag og uppsprengt verðlag á hótelum, hátt miðaverð. Það voru klár mistök að láta Þjóðverja ekki leika sunnar í Noregi. Að draga hugsanlega stærsta stuðningsmannahópinn til Bergen og síðan Þrándheims var hugsunarleysi.

Verðlag á gistingu á keppnisstöðum EM var kapítuli út af fyrir sig og þar mökuðu norskar ferðaskrifstofur krókinn. Þær tóku á leigu heilu hótelin á hagstæðu verði og seldu síðan út til gesta með ríflegri álagningu. Meðal dæma frá Þrándheimi er af Íslendingum sem þar voru og höfðu leigt hótel í gegnum norskt fyrirtæki sem leigt hafði heilt hótel. Ferðaskrifstofan innheimti jafnvirði 13.800 kr. fyrir sólarhringinn og varð að greiða gistinguna fyrirfram í byrjun janúar. Þegar kom að því að framlengja dvölina fengu þau svo að vita í afgreiðslu hótelsins að ekki fengist áfram „sama lága verðið“ á gistingunni, þ.e. ríflega 7.600 kr. heldur yrði nú að greiða jafnvirði 19.200 kr. og það beint til hótelsins fyrir eins manns herbergi með morgunmat. Þegar maðurinn sagðist hafa borgað 13.800 varð afgreiðslumaðurinn skömmustulegur því hann hafði greinilega talað af sér og greint frá leyndarmáli milli norsku ferðaskrifstofunnar og hótelsins. Mismunurinn á 13.800 kr. og 7.600 kr hafði sem sagt runnið í vasa ferðaskrifstofu einnar.

Dæmalaust í Lillehammer

Annað dæmi er frá Lillehammer þar sem úrslitahelgina fór fram. Lillehammer er ekki stærsti bær Noregs og hreint undarlegt að halda úrslitahelgina þar. Í Lillehammer var ekkert offramboð á gistingu þessa helgi enda fylgdu mótinu nokkur þúsund gestir. Þar var gestum m.a. bent á Birkebeineren Hotel & Apartment , nærri keppnishöllinni. Hótelið á 24.400 fyrir sólarhringinn og mótelið 15.000 kr. Þeim sem þetta ritar þótti nóg um verðið og ákvað að slá til og gista á mótelinu. Reyndist þar um að ræða hæstu leigu sem undirritaður hefur nokkru sinni greitt miðað við gæði. Herbergið 8-9 fermetrar á 2. hæð í timburhúsi. Ein barnakoja var í herberginu, ónothæfur fataskápur, borð sem eingöngu var brúkhæft undir lítinn blómavasa, lítið sjónvarp sem var í skjóli við kojuna. Ekki var hægt að loka glugganum og mögulegt að stinga kúlupenna öðrum megin á milli gluggaramma og opnanlega fagsins. Opinn glugginn kann að vera notalegur yfir sumarið en í 10 stiga frosti minnka notalegheitin. Síðast en ekki síst þurfti að deila salerni og baði með fjórum öðrum gestum. Hefði það verið sök sér ef niðurfallið í sturtunni hefði ekki verið hálfstíflað sem gerði að verkum að gólfið á salerninu var á floti nær alla daga.

Hefði ég komið daginn eftir að mótinu lauk hefði ég greitt jafnvirði 4.700 kr. fyrir herbergið „góða“ samkvæmt opinberri verðskrá Birkebeineren Hotel & Apartment.

Kvarta? Reyndu það! Þá var manni einfaldlega bent á með bros á vör að leita sér að annarri gistingu og hún var ekki á hverju strái. Síðast en ekki síst kostaði aðgöngumiði á undanúrslitin 15.600 og sama gjald var innheimt á úrslitaleikinn. Enda var nokkuð frá því að vera uppselt báða dagana.

Ívar Benediktsson (iben@mbl.is)