Hildur Petersen hpeter@mmedia.is
Hildur Petersen hpeter@mmedia.is
Að fenginni töluverðri reynslu við fyrirtækjarekstur hefur aldrei verið vafi í mínum huga að besti árangurinn næst með því að hafa sem jafnast hlutfall kynja í stjórn fyrirtækis.

Að fenginni töluverðri reynslu við fyrirtækjarekstur hefur aldrei verið vafi í mínum huga að besti árangurinn næst með því að hafa sem jafnast hlutfall kynja í stjórn fyrirtækis. Nýlegar rannsóknir, hérlendis og erlendis, sýna að mikil fylgni er með því að jöfn kynjahlutföll í stjórnum leiði til aukins árangurs fyrirtækja. Því skyldu karlar ekki gefa þessu gaum? Sennilega vegna þess að þeir leita almennt ekki langt út fyrir eigendahópinn eða sitt nánasta tengslanet þegar valið er í stjórnir þar sem maður þekkir mann sem þekkir of fáar konur. Það eru því tvær lausnir, annars vegar að þær konur sem þannig er statt hjá fari fyrir því fé sem þær eiga í sínum hjónaböndum til jafns við eiginmennina. Hin leiðin er sú að við verðum sýnilegri og komum okkur á framfæri við þá sem skipa í stjórnir. Því ákváðu FKA, félag kvenna í atvinnurekstri, og Leiðtogaauður að leggja sitt af mörkum til að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja. Haft var samband við um 700 félagskonur þessara tveggja félaga og þær sem væru reiðubúnar til að setjast í stjórnir fyrirtækja beðnar um að láta okkur vita. Einum sólarhring síðar voru yfir 100 konur búnar að gefa sig fram, allt konur með víðtæka reynslu og þekkingu og var sá listi kynntur í heilsíðuauglýsingum í dagblöðunum auk þess sem hann var sendur til forstjóra 150 stærstu fyrirtækja landsins. Sama dag boðuðu þessi tvö félög til fundar með viðskiptaráðherra þar sem var farið yfir stöðuna í dag. Á fundinum kom í ljós að áhugi kvenna á stjórnarsetu er mikill og lýsti viðskiptaráðherra yfir einlægum áhuga á að leggja okkur lið. Við í FKA og Leiðtogaauði ætlum að fylgja þessari jákvæðu aðgerð eftir og munum leggja margt til málanna áður en farið verður að íhuga lagasetningu sem flestir líta á sem afarkost. Við beinum því til allra fyrirtækja landsins sem ekki eru nú þegar með því sem næst jafn margar konur og karla í stjórnum sínum að íhuga þann kost að auka fjölbreytileikann í orðræðu og efnistökum við stjórnarborðið og uppskera nútímalegri ímynd og bættan árangur.

Höfundur er varaformaður FKA