Lýður Guðmundsson
Lýður Guðmundsson
HAGNAÐUR Exista á síðasta ári nam um 55,6 milljörðum króna á núvirði og er um 34,5% aukning á milli ára.

HAGNAÐUR Exista á síðasta ári nam um 55,6 milljörðum króna á núvirði og er um 34,5% aukning á milli ára. Miklar sviptingar á fjármálamörkuðum settu svip sinn á rekstur félagsins á fjórða ársfjórðungi en á því tímabili var um 28,5 milljarða króna tap á rekstri félagsins.

Hluti tapsins mun vera einskiptiskostnaður sem kemur til vegna skipulagsbreytinga hjá félaginu, en viðskiptum fyrir eigin reikning hefur verið hætt og fjórum starfsmönnum, sem störfuðu við það, hefur verið sagt upp störfum.

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista, segist ánægður með reikninga félagsins þrátt fyrir að þeir markist vissulega af erfiðu árferði. „Í öllum okkar áætlunum gerum við ráð fyrir því að markaðir geti tekið stefnuna niður á við og vorum því vel búin undir ástandið sem nú ríkir,“ segir hann. Bendir Lýður á að lausafjárstaða Exista sé mjög sterk og geti lausaféð enst félaginu í 69 vikur, gerist þess þörf.

„Þetta þýðir að við munum ekki þurfa að selja neinar af okkar kjarnaeignum og stendur það ekki til. Þá munum við ekki þurfa að leita endurfjármögnunar fyrr en um mitt næsta ár og munum því geta staðið af okkur óróleikann sem verið hefur á mörkuðum.“ | 15