Í púlti Tveir nemendur Njarðvíkurskóla kynna Snorra Sturluson.
Í púlti Tveir nemendur Njarðvíkurskóla kynna Snorra Sturluson.
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is Reykjanesbær | Nemendum í grunnskólum Reykjanesbæjar hefur fjölgað ört í vetur. Metfjölgun var í haust en þá voru nemendur 130 fleiri en haustið áður og 30 til 40 börn bættust svo við nú í upphafi árs.

Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

Reykjanesbær | Nemendum í grunnskólum Reykjanesbæjar hefur fjölgað ört í vetur. Metfjölgun var í haust en þá voru nemendur 130 fleiri en haustið áður og 30 til 40 börn bættust svo við nú í upphafi árs. Mest hefur mætt á Njarðvíkurskóla í þessum sviptingum.

Nú eru um 2.010 börn í sex grunnskólum í Reykjanesbæ, að sögn Eiríks Hermannssonar fræðslustjóra en haustið 2006 voru 1.845 börn við nám. Aukningin er vegna fjölgunar íbúa, ekki síst í nýja hverfinu, Vallarheiði á Keflavíkurflugvelli, og í nýju hverfunum í Innri-Njarðvík. Á Vallarheiði var í fyrra opnaður nýr skóli fyrir yngstu börnin á vegum Hjallastefnunnar og Akurskóli í Tjarnahverfi í Innri-Njarðvík er byggður upp smám saman. Þar eru börn úr nýju hverfunum í fyrsta til áttunda bekk og einn árgangur bætist við næsta haust. Tveir elstu árgangarnir eru enn í Njarðvíkurskóla.

„Þetta hefur gengið merkilega vel,“ segir Eiríkur þegar hann er spurður að því hvernig gengið hafi að taka við þessum mikla fjölda. Hann segir að mesta fjölgunin hafi verið í Njarðvíkurskóla og þar sé kennt í hverjum krók og kima.

Reiknað er með að álagið í Njarðvíkurskóla jafnist út á næstu tveimur árum, að sögn Láru Guðmundsdóttur skólastjóra. Er það vegna þess að útlit er fyrir að lítill árgangur hefji nám við skólann í haust í stað stórs tíunda bekkjar og vegna þess að Akurskóli tekur smám saman við öllum börnum úr hverfunum í Innri-Njarðvík.

Lára segir að vissulega skapi það erfiðleika hvað fjölgað hafi skyndilega. „Sem betur fer hefur þetta gengið ágætlega. Við erum með frábært starfsfólk sem hefur tekið á móti krökkunum og lætur þetta ganga,“ segir Lára.

Lára hefur tekið eftir því að töluvert af nýju börnunum kemur frá útlöndum. Í mörgum tilvikum eru foreldrarnir að koma heim úr námi og velja að setjast að í nýjum hverfum Reykjanesbæjar eða í stúdentaíbúðum á Vallarheiði. Þetta er gjarnan ungt fjölskyldufólk.

Vegna fjölgunar nemenda hefur starfsfólki verið fjölgað. Þannig hafa bæst við um tuttugu kennarar. Eiríkur segir að þrátt fyrir það hafi tekist að halda svipuðu hlutfalli fagmenntaðs fólk og áður, um 85%. Vissulega hafi einnig komið ungir og óreyndir leiðbeinendur til aðstoðar.