[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á meðan hópur góðra vina heldur kveðjuteiti vegna brottfarar eins þeirra til Japans ræðst risastórt skrímsli á borgina og leggur allt í rúst.

Á meðan hópur góðra vina heldur kveðjuteiti vegna brottfarar eins þeirra til Japans ræðst risastórt skrímsli á borgina og leggur allt í rúst. Það er gaman að myndin Cloverfield hefjist á svo mörgum tilvitnunum í Japan því Japanar eru meistarar skrímslamyndanna, eins og fjölmargar Godzilla-myndir vitna um. Cloverfield gerir hins vegar eitt sem aðrar skrímslamyndir hafa hingað til ekki getað gert og það er að ljá sögunni vissan trúverðugleika.

Myndatakan á Cloverfield er í senn hennar helsti kostur og stærsti galli. Myndin er látin líta þannig út að sagan sé mynduð af þeim einstaklingum sem lenda í þessum hremmingum og fyrir skrímslamynd er það stórkostlegur kostur. Ringulreiðin, sem væntanlega grípur íbúa stórborgar þegar ókunn ógn ræðst á borgina, kemst einstaklega vel til skila. Óttinn og óvissan skila sér einnig mjög vel og nær myndin því að fanga athygli áhorfenda.

Maður verður hins vegar fljótt leiður á því að horfa þegar myndavélin hristist sí og æ. Þeir sem létu myndatökuna í Blair Witch pirra sig munu verða brjálaðir yfir Cloverfield og þeim sem verða auðveldlega sjóveikir mun án efa líða eins og þeir sitji um borð í Herjólfi í brotsjó og barningi.