Baron Davis
Baron Davis
BARON Davis, fyrrum leikmaður Hornets, lét verkin tala þegar hann mætti með Golden State-liðinu til New Orleans. Áhorfendur púuðu á hann allan leikinn, eða allt þar til hann setti niður þriggja stiga skot á lokasekúndunum og gulltryggði 116:103 sigur.

BARON Davis, fyrrum leikmaður Hornets, lét verkin tala þegar hann mætti með Golden State-liðinu til New Orleans. Áhorfendur púuðu á hann allan leikinn, eða allt þar til hann setti niður þriggja stiga skot á lokasekúndunum og gulltryggði 116:103 sigur. Stríðsmennirnir í Golden State stöðvuðu þar með sigurgöngu Hornets, sem hafði sigrað í níu leikjum í röð. „Það er enginn hrifinn af því að láta púa á sig. Þetta truflaði mig aðeins en ekki mikið enda átti ég von á þessu og var því viðbúinn,“ sagði Davis. Það leit ekki út fyrir að hann myndi vera með, því þegar liðið fór á skotæfingu fyrr um daginn varð hann eftir á hótelinu þar sem hann var hálfslappur. En hann var ekki slappur í leiknum um kvöldið heldur sjóðheitur, gerði fimm þriggja stiga körfur og átti níu stoðsendingar. Hann lauk leiknum með 23 stig en Stephen Jackson var stigahæstur með 26.

„Þegar við erum allir á sömu bylgjulengd og hittum eins og við gerðum í kvöld erum við erfiðir viðureignar,“ sagði Jackson.