Dofri Hermannsson | 31. janúar 2008 Samfylking, Sjálfstæðisflokkur og borgin Hún er ánægjuleg fyrir Samfylkinguna könnunin í Fréttablaðinu í dag en fylgi hennar á landsvísu er nú 34,8% og hefur aukist um 5% frá því í lok september.

Dofri Hermannsson | 31. janúar 2008

Samfylking, Sjálfstæðisflokkur og borgin

Hún er ánægjuleg fyrir Samfylkinguna könnunin í Fréttablaðinu í dag en fylgi hennar á landsvísu er nú 34,8% og hefur aukist um 5% frá því í lok september. Fylgi Sjálfstæðisflokksins dalar nokkuð, er 36,7% og hefur minnkað um 3,5% á landsvísu frá því í lok september. Samkvæmt könnuninni er ekki marktækur munur á fylgi þessara flokka. 68,5% styðja ríkisstjórnina.

Það er athyglisvert sem fram kemur í Fréttablaðinu að Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað um 9% á höfuðborgarsvæðinu frá því í síðustu könnun í lok september. Var 40,4% en er hrunið niður í 31.9%. Þetta hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir þá af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem stóðu að valdatökunni í Reykjavík nú í janúar.

Í þessu felast skýr skilaboð. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru miður sín yfir framgöngu flokksins við hina nýafstöðnu valdatöku. Lái þeim hver sem vill. Ólíkt borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins skeyta kjósendur hans um skömm og heiður og er ekki sama hvaða meðulum er beitt til að komast til valda. Taka jafnvel sæmd fram yfir völd ef bara annað er í boði.

Þá er ekki ólíklegt að þeim þyki verðmiðinn hár fyrir lítt eftirsóknarverða pólitíska endurlífgun Vilhjálms Þ Vilhjálmssonar og raunalegt að 6 menningarnir svokölluðu skyldu ekki nýta afganginn af kjörtímabilinu til að klára leiðtogabaráttu sína, byggja aftur upp traust á sér sem samstilltum hóp og kasta rekunum yfir gamaldags spillingarpólitík.

Af þessu verður greinilega ekki, 6 menningarnir sem nú munu aðeins vera 5, fengu að vita af byltingu Baldurs og Konna með rétt nógum fyrirvara til að komast í sparifötin og skutlast upp á Kjarvalsstaði. Þar hafa þau fyrst fengið að vita að 10% maðurinn (6.527 atkvæði) yrði borgarstjóri, að baráttumálum þeirra hefði verið ýtt út í horn og svo korteri fyrir útsendingu að 10% maðurinn hefði ekki stuðning 1. og 2. varamanns síns.

Þetta má lesa úr viðtölum við forsprakka valdatökunnar en ekki síður úr jarðarfararsvip 5 menninganna.

dofri.blog.is