Fjallvegur Talsverður styr stendur innan Austurlandsfjórðungs um gerð heilsársvegar um Öxi.
Fjallvegur Talsverður styr stendur innan Austurlandsfjórðungs um gerð heilsársvegar um Öxi. — Morgunblaðið/Andrés Skúlason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Steinunni Ásmundsdóttur steinunn@mbl.is Djúpstætt ósamkomulag er innan Austurlandsfjórðungs um gerð nýs heilsársvegar yfir Öxi fyrir árið 2011. Hluti Austfirðinga lítur á vegagerð upp í 530 metra hæð sem hreina fásinnu.

Eftir Steinunni Ásmundsdóttur

steinunn@mbl.is

Djúpstætt ósamkomulag er innan Austurlandsfjórðungs um gerð nýs heilsársvegar yfir Öxi fyrir árið 2011. Hluti Austfirðinga lítur á vegagerð upp í 530 metra hæð sem hreina fásinnu. Vegagerðin kynnti nýlega drög að tillögu um matsáætlun vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Samband sveitarfélaga á Austurlandi hefur um árabil samþykkt ályktanir um samgöngubætur og sent stjórnvöldum, þ.á m. um endurbætur og gerð heilsársvegar um Öxi.

Leggja á nýjan 18 km langan veg sem nær frá vegamótum við hringveg um 5 km sunnan við enda Skriðuvatns í Skriðdal, að hringvegi í botni Berufjarðar. Ákvörðun um að ráðist skyldi í framkvæmdina með opinberu fjármagni árin 2009 til 2011 var tekin í fyrrasumar og er hluti af mótvægisaðgerðum stjórnvalda vegna skerðingar á þorskkvóta. Áætlað er að verja 1,5 milljörðum í lagningu vegarins og gætu framkvæmdir hafist af alvöru á næstu 2-3 árum. Vegurinn styttir hringveginn um 61 km.

Liðin tíð að leggja veg um fjöll

Ragnhildur Kristjánsdóttir á Eskifirði segir í bréfi til Vegagerðarinnar í öndverðum janúarmánuði að Kristján Möller samgönguráðherra hafi sagt í útvarpsviðtali, þar sem Héðinsfjarðargöng voru til umræðu, að liðin tíð væri að leggja vegi yfir fjöll og firnindi. Hún minnir í bréfi sínu á að vetrarveður séu hörð á Öxi. „Mönnum sem þekkja vel þessa leið ber saman um að veðurskilyrði þarna séu sérstaklega erfið,“ skrifar Ragnhildur og finnst sérkennilegt ef geðþóttaákvörðun ráðherra um Axarveg gengur framar samþykkt Alþingis í vegamálum.

Í Breiðdal telur fólk hæpið að nýr vegur um Öxi gagnist íbúum Breiðdalshrepps og sveitarstjórinn, Páll Baldursson, segist ekki sjá að hann muni koma fiskvinnslufólki sérstaklega til góða. Þetta þjóni því ekki tilgangi sem mótvægisaðgerð.

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps er hins vegar afar ánægð með nýjan veg um Öxi og segir Axarveg lífæð íbúa Djúpavogs að þjónustukjarnanum á Fljótsdalshéraði. Heilsársvegtenging milli þessara svæða auki til muna líkur á meiri samvinnu og eftir atvikum sameiningu Djúpavogshrepps og Fljótdalshéraðs. Forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, Soffía Lárusdóttir, skorar á Austfirðinga að sameinast um þessa mikilvægu framkvæmd líkt og gerst hafi með jarðgöngin til Fáskrúðsfjarðar og fyrirhuguð jarðgöng til Neskaupstaðar. Vegalengdir á milli byggðarlaga styttist, sem og á hringveginum, byggðir tengist betur og umferðaröryggi aukist.

Oddviti Djúpavogshrepps, Andrés Skúlason, hefur sagt að nýr, uppbyggður vegur um Öxi í fullri breidd, með 8% veghalla í stað 17%, verði hindrunarlaus vegur allan ársins hring. „Ég geri ráð fyrir að það snjói eitthvað á hann eins og aðra vegi á Íslandi,“ segir Andrés og bætir við að oftar hafi hann lent í vandræðum á veginum austur með ströndinni og suður eftir heldur en um Öxi, sem hafi að meðaltali verið lokuð í um einn mánuð árlega vegna færðar. „Eitt af vandamálunum við veginn með ströndinni er að oft og tíðum er þar gríðarleg hálka og mjög er þar sviptivindasamt, sem maður lendir ekki í á leiðinni yfir Öxi.“

Stór ferðaþjónustuaðili á Héraði segir nýjan Axarveg tvímælalaust af hinu góða og að hann gefi aukna möguleika, sérstaklega fyrir ferðaþjónustu á Djúpavogi. Hringferð um Austurland þar sem allir firðir séu teknir fyrir verði og álitlegur kostur.

Valdimar O. Hermannsson í bæjarstjórn Fjarðabyggðar segir að auðvitað beri að fagna öllum vegbótum á Austurlandi. Það skjóti þó skökku við að meðan sveitarstjórnarmenn um alla firði og héruð berjist við að ná erfiðum fjallvegum niður í hæð; á Oddskarði, Fjarðarheiði, Fagradal og víðar, skuli eiga að byggja fjallveg í 530 m hæð fyrir mörg hundruð milljónir í stað þess að nýta fjármagnið til þarfari samgöngubóta. Undir þetta tekur Smári Geirsson, sem einnig situr í bæjarstjórn Fjarðabyggðar. Hann segir að þrátt fyrir áskoranir SSA um Öxi telji hann að eftir á að hyggja sé alger tímaskekkja árið 2008 að beina umferð í 530 m hæð að vetrarlagi. „Menn eiga að leggja aðrar áherslur í samgöngumálum og nútíminn felst í að skapa samgönguaðstæður þar sem hugsað er um að menn komist greiða leið og þeir séu öruggir. Hvorugt á við um þessa framkvæmd. Auk nauðsynlegra úrbóta á vegum með ströndinni eru jarðgöng framtíðin,“ segir Smári.

Vegirnir suður með ónýtir

Andstæðingar heilsársvegar um Öxi benda á að menn sitji uppi með ónýta vegi frá Reyðarfirði og nánast suður úr. Nú sé að vísu komin á dagskrá vegagerð í Hamarsfirði en ekki sé inni í myndinni að þvera fjörðinn að svo komnu máli. Vegurinn beggja vegna fjarðarins sé illa farinn, vegir með suðurströnd Fáskrúðsfjarðar séu sömuleiðis mjög lakir og verið hafi 10 tonna öxulþungi á þeim í vetur. Þá segir fólk að fjármagni, sem leggja á í Axarveg, hefði betur verið varið í gangagerð milli Berufjarðar og Breiðdals eða undir Lónsheiði.

Framundan hjá Vegagerðinni á næstu misserum eru m.a. vegbætur í botni Berufjarðar og í Hamarsfirði. Þá er gerð sterk krafa um jarðgöng milli Álftafjarðar og Lóns til að losna við akstur um Hvalnes- og Þvottárskriður sem eru einhver viðhaldsfrekasti vegakafli hringvegarins. Þar á raunar að fara í vegbætur í sumar. Jarðgangagerð milli Eskifjarðar og Norðfjarðar stendur og fyrir dyrum.

Heyra má að innan Vegagerðarinnar á Austurlandi eru einnig skiptar skoðanir um nýjan Axarveg. Ýmist segja menn þar á bæ að framkvæmdin sé besti möguleikinn í styttingu hringvegarins í einum áfanga á umferðarlegu og landfræðilegu miðsvæði Austurlands, eða að laga beri Axarveg fyrir 150 milljónir króna sem sumarveg, og leggja einn og hálfa milljarðinn í brýnni aðgerðir í vegamálum, og fyrst og síðast; forgangsraða.

Í hnotskurn
» Áform um uppbyggðan heilsársveg yfir Öxi valda deilum á Austurlandi.
» Andstæðingar framkvæmdarinnar segja tímaskekkju að beina vetrarumferð í 530 metra h.y.s. og að aðgerðin sé marklaus sem liður í mótvægisaðgerðum stjórnvalda vegna kvótaniðurskurðar.
» Þeir sem vilja heilsársveg yfir Öxi segja hann til góðs fyrir allt Austurland, hann stytti vegalengdir og auki umferðaröryggi. Þá liðki hann fyrir vöruflutningum inn á miðsvæðið.