— Nordic-Photo/AFP
Þingmaður Afríska þjóðarráðsins, ANC, stjórnarflokks Suður-Afríku, hefur lagt til að vændi verði lögleitt meðan heimsmeistaramót í knattspyrnu stendur yfir árið 2010.

Þingmaður Afríska þjóðarráðsins, ANC, stjórnarflokks Suður-Afríku, hefur lagt til að vændi verði lögleitt meðan heimsmeistaramót í knattspyrnu stendur yfir árið 2010. Tillaga George Lekgetho var rædd þegar þingnefnd lista og menningar fór yfir stöðu mála í undirbúningi HM í vikunni.

„Ef kynlífsiðnaður er lögleiddur gerir fólk ekkert í leyni. Það myndi færa okkur skatttekjur sem nýta mætti til að bæta líf þeirra sem ekki eru í vinnu,“ sagði Lekgetho. Hélt hann því enn fremur fram að breytingarnar myndu fækka nauðgunum á konum.

Stjórnarandstöðuþingmaðurinn Sydney Opperman mótmælti því að ríkið gerði sér samband kynjanna að féþúfu. „Þú getur ekki sett verðmiða á innilegasta samband karls og konu og tengt hann skattheimtu okkar,“ sagði Opperman.

Urðu nefndarmenn að sögn Mail&Guardian sammála um að hugmyndina mætti taka til almennrar umræðu úti í samfélaginu áður en lengra yrði haldið. andresingi@24stundir.is