Nýliðið ár var hið besta í sögu breska bílaframleiðandans Bentley. Seldi hann 10.014 bíla eða 10 sinnum fleiri en keppinauturinn Rolls Royce. Jókst framleiðslan um 7% og Bentley bætti við sig á öllum helstu mörkuðum heims.

Nýliðið ár var hið besta í sögu breska bílaframleiðandans Bentley. Seldi hann 10.014 bíla eða 10 sinnum fleiri en keppinauturinn Rolls Royce. Jókst framleiðslan um 7% og Bentley bætti við sig á öllum helstu mörkuðum heims.

Þannig seldust 7% fleiri Bentley-bílar í Bretlandi en árið áður, 4% söluaukning varð í Norður–Ameríku, 7% í Evrópu, 18% í Asíu og á Kyrrahafssvæðinu og 93% aukning varð í Kína einu.

Aldrei hefur Bentley selt fleiri bíla í Bretlandi en í fyrra, eða 2.079 eintök. Þrátt fyrir óhagstætt efnahagslegt umhverfi seldust 4.196 bílar í Bandaríkjunum. Á meginlandi Evrópu var einnig um sölumet að ræða, en þar seldust 2.166 bílar. Í Kína seldust 338 bílar og Bentley sótti í fyrsta sinn inn á Kóreumarkað í fyrra. Árangurinn var 100 seldir bílar.

Bílasmiðjur Bentley eru allar í Englandi, í borginni Crewe í norðvesturhluta Englands. Starfsmenn fyrirtækisins eru á fimmta þúsund, þar af eru um 500 verkfræðingar. Útflutningstekjur Bentley árið 2007 námu rúmum 745 milljónum punda, eða sem svarar 93 milljörðum króna.