Bleikir draumar „Eins og við er að búast er á sýningunni samansafn ólíkra mynda þar sem sumar eru áhugaverðari en aðrar.“
Bleikir draumar „Eins og við er að búast er á sýningunni samansafn ólíkra mynda þar sem sumar eru áhugaverðari en aðrar.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ljósmyndasafn Reykjavíkur býður upp á óvenjulega ljósmyndasýningu, þar sem mörkin milli áhugamanna og atvinnufólks eru óljós.

Ljósmyndasafn Reykjavíkur býður upp á óvenjulega ljósmyndasýningu, þar sem mörkin milli áhugamanna og atvinnufólks eru óljós. Myndirnar eru valdar af Flickr-vefnum en þar má skoða ljósmyndir margs fólks sem sendir inn myndir og margar nýjar bætast við á hverri mínútu. Með myndunum fylgja oftast upplýsingar um hvar myndin er tekin og hvaða tækni er notuð. Þeir sem skoða geta síðan skrifað álit sitt eða spurst fyrir um ákveðna tækni.

Sem dæmi um fjölda mynda má nefna að ef skoðað er út frá viðfangsefni eru um 425.000 myndir af Íslandi, 95.000 af Reykjavík og 400 af Álftanesi. Tæpar tvær miljónir mynda sýna Tókýó. Á vefnum eru því augljóslega tugmilljónir mynda, en Ljósmyndasafnið hefur valið myndir eftir um hundrað Íslendinga og flokkað þær eftir viðfangsefni í portrett, umhverfi, daglegt líf, svarthvítar myndir, tísku og tónlist.

Eins og við er að búast er á sýningunni samansafn ólíkra mynda þar sem sumar eru áhugaverðari en aðrar. Sjá má áhrif frá straumum og stefnum í sögu ljósmyndarinnar en einnig fyrirbærum í samtímanum.

Það má velta því fyrir sér hvaða áhrif vefur sem þessi og aðrir álíka, sem og sífellt aðgengilegri tækni, hafa á ljósmyndina sem fyrirbæri í samtímanum. Hér koma fram auknir möguleikar fyrir bæði áhugaljósmyndara og atvinnufólk á að koma ljósmyndum sínum á framfæri, vera uppgötvað ef svo má segja. Einnig hlýtur að vera áhugavert að geta lært nýja tækni af vefnum, þar sem upplýsingar um linsugerð, tímalengd o.fl. fylgja myndunum. Möguleikinn á að spjalla við aðra um myndirnar, hvort sem ljósmyndarinn er á Kópaskeri eða í Kína, er síðan auðvitað frábær. Einnig má hugsa sér ýmis áhrif myndabloggs á ljósmyndun samtímans, til dæmis aukna áherslu á frásögn í myndum, eða næma tilfinningu fyrir samtímasýn.

Um leið getur það verið álitamál hvort framboð á misáhugaverðum ljósmyndum í slíku magni að ekki er nokkur leið að skoða það af nokkru viti, sbr. þær 425.000 myndir af Íslandi sem til eru á vefnum, sé spennandi kostur. Myndablogg verður æ algengara, þar sem myndirnar eru látnar tala. Sú þróun gæti haft afleiðingar fyrir tjáskiptamáta komandi kynslóða. Einnig er augljós sú staðreynd að það er hvorki tækni né möguleikinn á fjölföldun og birtingu sem skapar eftirminnileg listaverk, heldur mannsandinn sjálfur.

Það fer þó ekki á milli mála að á sýningunni í Ljósmyndasafninu má sjá margar ágætar ljósmyndir, teknar af hugvitssemi, með næmri sýn og glöggu auga, og í heild er hún til vitnis um áhugaverða þróun sem ekki sér fyrir endann á. Sýningin í Ljósmyndasafninu stendur til 17. febrúar og Flickr-vefurinn er öllum opinn.

Ragna Sigurðardóttir (ragnahoh@gmail.com)