Helga Ingimundardóttir fæddist í Kaldárholti í Holtahreppi í Rangárvallasýslu 23. desember 1914. Hún andaðist á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ hinn 22. janúar síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Dómkirkjunni 30. janúar.

Helga Ingimundardóttir var öðru fremur góð kona. Hún er mér í minni nánast frá því ég fyrst man eftir mér og líklega er ekkert orð sem lýsir henni betur en að hún hafi verið góð. Helga var mágkona móður minnar, gift Sveini Benediktssyni. Hún átti afmæli á Þorláksmessu og afmælisveisla á Miklubrautinni var fastur punktur í aðdraganda jólanna hjá minni fjölskyldu. Það var bæði frændsemi og vinátta milli fjölskyldnanna. Mömmu þótti vænt um bræður sína og sagði aldrei við þá styggðaryrði svo ég muni. Bræðurnir voru allir fyrirferðarmiklir í þjóðlífinu og stundum fannst mömmu það hafa gleymst að foreldrar hennar hefðu líka átt dætur. En hún var mjög stolt af þeim bræðrum og studdi þá þegar hún gat. Þeir voru henni líka góðir.

Líklega hefur það verið þegar Ólafía Pétursdóttir, ömmusystir mín, varð níræð, að Sveinn hélt ræðu. Hann var til þess sjálfkjörinn sem elsti fulltrúi sinnar kynslóðar. Hann talaði fallega um móðursystur sína en eitt festist í huga mér öðru fremur. Hann sagði frá því þegar hann kom fyrst með Helgu að Laugavegi 66. Þá sagði Ólafía við hann: „Haltu í hana þessa.“ Sveinn bætti við: „Það gerði ég og það var mín gæfa í lífinu.“ Kannski minnist ég þessa vegna þess að ég var ekki vanur því að þau systkini væru að flíka tilfinningum sínum. Enginn efaðist um réttmæti þessara orða. Helga var akkeri í lífi Sveins og sá um heimilið meðan hann sá um að reka fabrikkur hér og þar um landið. Ég held að Sveinn hafi kunnað að keyra bíl en hann vildi miklu heldur að Helga keyrði. Það var óvenjulegt á þeim árum.

Helga var höfðingi heim að sækja og þó að hún væri róleg og tranaði sér alla jafna ekki fram í margmenni hafði hún góða kímnigáfu. Helga hélt góðri heilsu langt fram eftir aldri og kom á mannamót. Það var gaman að sjá hana á slíkum stundum, alltaf sjálfri sér líka. Síðustu árin bjó hún í Skógarbæ ásamt Ragnheiði systur sinni. Það varð stutt á milli andláts þeirra systra og nú hefur enn verið höggvið skarð í nánustu fjölskyldu þeirra. Á þessari stundu minnumst við góðrar konu með hlýju. Ég sendi afkomendum Helgu Ingimundardóttur og öðru venslafólki samúðarkveðjur.

Benedikt Jóhannesson.