Leikæfing David Beckham, fyrrverandi fyrirliði enska landsliðsins, er hér að ræða við Spánverjann Cesc Fabregas á æfingu hjá Arsenal. Beckham hefur ekki tekið þátt í kappleik lengi og er ekki í leikæfingu.
Leikæfing David Beckham, fyrrverandi fyrirliði enska landsliðsins, er hér að ræða við Spánverjann Cesc Fabregas á æfingu hjá Arsenal. Beckham hefur ekki tekið þátt í kappleik lengi og er ekki í leikæfingu. — Reuters
ÞAÐ fór eins og marga grunaði. Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englendinga, valdi David Beckham ekki í sinn fyrsta landsliðshóp sem hann opinberaði í gær en Englendingar leika sinn fyrsta leik undir stjórn Ítalans gegn Svisslendingum í næstu viku.

ÞAÐ fór eins og marga grunaði. Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englendinga, valdi David Beckham ekki í sinn fyrsta landsliðshóp sem hann opinberaði í gær en Englendingar leika sinn fyrsta leik undir stjórn Ítalans gegn Svisslendingum í næstu viku. Þar með er ekki sagt að Beckham eigi ekki afturkvæmt í landsliðið því Capello greindi fréttamönnum frá því í gær að Beckham ætti möguleika á að vinna sig inn í landsliðið en það gerði hann ekki nema að spila reglulega með sínu félagsliði.

,,Það hefur verið mikil umræða í gangi um Beckham og enska landsliðið en ástæðan fyrir því að ég valdi ekki Beckham er ósköp einföld. Hann hefur ekkert spilað síðan í nóvember og er þar af leiðandi ekki í leikformi. Ég átti spjall við hann símleiðis í gær og tjáði honum að hann væri áfram inni í mínum áætlunum og um leið og hann fer að spila reglulega með liði sínu í Bandaríkjunum mun ég fylgjast náið með honum,“ sagði Capello.

Beckham hafði vænst til að spila100. leikinn í ensku landsliðstreyjunni gegn Sviss en hann hefur síðustu vikur reynt að halda sér í formi með því að æfa með liði Arsenal en langt er liðið frá því hann lauk leiktíðinni með LA Galaxy í Bandaríkjunum.

Orðrómur var í gangi um að Michael Owen yrði ekki valinn í hópinn en sá orðrómur átti ekki við rök að styðjast því Owen var valinn í 30 manna leikmannahópinn sem Capello tilkynnti í gær.

Ekki ákveðið með fyrirliða

Capello valdi tvo nýliða, Gabriel Agbonlahor og Curtis Davies sem báðir leika með Aston Villa en Aston Villa og Manchester United eiga flestu leikmenn í landsliðshópnum, fimm hvert.

,,Ég ákvað að velja 30 manna hóp og ég held að það sé mikilvægt að allir leikmennirnir séu jafnir frá byrjun en ég mun svo fækka niður í 23 menn á laugardaginn,“ sagði Capello, sem á enn eftir að ákveða hver muni bera fyrirliðabandið. John Terry var fyrirliði þegar Steve McClaren var við stjórnvölinn en hann er meiddur og er ekki í hópnum sem og Frank Lampard og líklegt þykir að Steven Gerrard, Liverpool, eða Rio Ferdinand, Manchester United, muni gegna fyrirliðastöðunni og hefur Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, kvatt Capello til að útefna Ferdinand sem fyrirliða.

Paul Robinson markvörður Tottenham, sem er kominn út í kuldann hjá Tottenham, hlaut ekki náð fyrir augum Capello en markverðirnir sem hann valdi eru David James, Portsmouth, Scott Carson, Aston Villa, og Chris Kirkland, Wigan.

Reyndum að skoða eins marga enska leikmenn og mögulegt var

Ekki verður sagt að Capello hafi gert neinar umbyltingar en úr enska landsliðshópnum sem tapaði fyrir Króötum í nóvember og missti þar af sæti í úrslitakeppni Evrópumótsins vantar aðeins Sol Campbell varnarmann úr Portsmouth.

,,Ég og aðstoðarmaður minn Franco Baldini höfum séð marga leiki á Englandi frá því við komum hingað og við reyndum að skoða eins marga enska leikmenn og mögulegt var áður en við kunngerðum valið. Það voru margir leikmenn sem við þekktum og höfum séð en það voru líka margir sem við sáum í fyrsta sinn. Við munum nota tímann þar til við hefjum undankeppni heimsmeistaramótsins í september að skoða leikmenn og finna út bestu formúluna fyrir enska landsliðið. Þá eru margir leikmenn sem ekki voru valdir að þessu sinni sem ég á eftir að skoða betur,“ sagði Capello sem ætlar að fylgjast með leik Manchester City og Arsenal sem fram fer í Manchester á morgun en Baldini verður á White Hart Lane þar sem Tottenham tekur á móti Manchester United. Eftir þessa leiki munu þeir bera saman bækur sínar áður en þeir velja 23 manna leikmannahóp.

Í hnotskurn
» David Beckham skortir einn leik til að ná 100 landsleikja markinu en fjórir leikmenn hafa náð að spila 100 leiki eða fleiri fyrir enska landsliðið.
» Markvörðurinn Peter Shilton er leikjahæstur með 125 leiki, Bobby Moore 108, Bobby Charlton 106 og Billy Wright 105.
» John Terry og Frank Lampard, leikmenn Chelsea, voru ekki valdir í landsliðshópinn en báðir eiga þeir við meiðsli að stríða.
» Aaron Lennon og Theo Walgott voru valdir í 21 árs lið Englands en eru báðir inni í myndinni hjá Capello.