Vanda sig! Sólveig Lára Kjærnested skoraði 6 mörk fyrir Stjörnuna gegn Gróttu í gær, í 29:22-sigri liðsins í N1-deild kvenna í handbolta.
Vanda sig! Sólveig Lára Kjærnested skoraði 6 mörk fyrir Stjörnuna gegn Gróttu í gær, í 29:22-sigri liðsins í N1-deild kvenna í handbolta. — Árvakur/Ómar
VIÐ vorum ekki nógu góðar í vörn í fyrri hálfleik, sérstaklega ekki í að hirða fráköstin þar sem við vorum ekki nóg grimmar í boltann en svo kom grimmd í leik okkar eftir hlé og við gerðum út um leikinn þegar varnarleikurinn batnaði til muna,“...

VIÐ vorum ekki nógu góðar í vörn í fyrri hálfleik, sérstaklega ekki í að hirða fráköstin þar sem við vorum ekki nóg grimmar í boltann en svo kom grimmd í leik okkar eftir hlé og við gerðum út um leikinn þegar varnarleikurinn batnaði til muna,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested, sem átti góðan leik og skoraði 6 mörk fyrir Stjörnuna í 29:25 sigri á Gróttu í Garðabænum í gærkvöldi. Það var samt ekki fyrr en með góðum kafla í síðari hálfleik að Garðbæingar gerðu út um leikinn.

Eftir Stefán Stefánsson

LEIKURINN var frekar rislítill framan af en um miðjan fyrri hálfleik hrukku Garðbæingar í gang, sem skilaði þeim þriggja marka forystu, ekki síst þar sem Sólveig Lára náði að brjóta niður sóknarleik gestanna af Seltjarnarnesi. Garðbæingar fylgdu því hinsvegar ekki eftir og með tveimur fyrstu mörkum síðari hálfleiks komst Grótta yfir, 15:14. Það vakti Stjörnuliðið af værum blundi og á meðan það skoraði 7 mörk úr jafnmörgum sóknum en Gróttu tvö, snerist taflið við og Stjarnan náði 21:17 forystu. Eftir örlítið hik hrökk Stjarnan aftur í gang og með 6 mörkum á móti einu varð 7 marka munur þegar 8 mínútur voru eftir. Stjarnan slakaði á, leyfði fleirum af bekknum að spreyta sig og þó að Grótta gyrti í brók dugði það ekki til.

Tvær með 10 af 12 mörkum

Stjarnan var vel að sigrinum komin þó að leikmenn hafi leyft sér að slaka á stutta kafla. Florentina Stanciu fór á kostum milli stanganna og varði 17 skot fyrir hlé, sem segir reyndar eitthvað um vörn félaga sinna, sem horfðu á hana verja og hirtu ekki oft um að reyna að taka boltann þegar hann hrökk af Florentinu.

„Ég hef ekki verið í skyttuhlutverki, var eiginlega bara að fylla upp í því skyttan er meidd en mér finnst gaman að vera hvar sem er, bara ef ég fæ að taka á mótherjum, taka víti og fleira,“ sagði Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, sem að öllu jöfnu er í hlutverki línumanns en brá sér í skyttuhlutverkið og var markahæst með níu mörk, þar af tvö af línunni og fjögur úr vítum. Það dugði samt ekki til því Stjarnan hafði undirtökin. „Það er alltaf leiðinlegt að elta og við náðum þeim eiginlega aldrei því eftir að jafnt var í hálfleik tóku þær fram úr okkur. Fyrri hálfleikur var frekar slakur og við gáfum þeim of mikið af ódýrum mörkum þegar vörnin var ekki nógu öflug, eins og hún hefur verið í tveimur síðustu leikjum. Við höfum fengið tækifæri gegn Fram og Stjörnunni til að komast ofar í töflunni en erum bara ekki í nógu góðu standi til að stíga skrefi lengra, sem er okkur að kenna og verðum að rífa okkur upp úr því.“ Eftir sæmilegan fyrri hálfleik þurftu Anna Úrsúla og Auksa Visnikaite að skora 10 af 12 mörkum Gróttu í síðari hálfleik. Gott hjá þeim en slakt hjá stöllum þeirra.

Öruggt hjá Fram

Fram vann nokkuð öruggan sigur á FH, 29:22, en liðin áttust við í Framhúsinu. Framarar höfðu yfir allan tímann en staðan í leikhléi var 14:10. Hjá Fram sem er eina taplausa liðið í deildinni, var Guðrún Þóra Hálfdánardóttir atkvæðamest með 8 mörk og Sigurbjörn Jóhannsdóttir skoraði 7 en hjá FH voru þær Hildur Þorgeirsdóttir og Ebba Særún Brynjarsdóttir með 5 mörk hver.