„Það er aldrei að vita nema ég gefi peningana í eitthvert góðgerðardæmi.

„Það er aldrei að vita nema ég gefi peningana í eitthvert góðgerðardæmi. Ég er allavega búinn að spá mikið í það,“ segir Ólafur Geir Jónsson, fyrrum herra Ísland, en honum voru í fyrradag dæmdar fimm hundruð þúsund krónur í miskabætur frá Arnari Laufdal og Fegurðarsamkeppni Íslands vegna ólögmætrar sviptingar titilsins herra Ísland árið 2005.

Inntur upplýsinga um málið að öðru leyti vill Ólafur lítið gefa upp, en kveðst þó sáttur við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur.

„Ég er mjög sáttur við þetta og ánægður með að þetta sé loksins búið. Það er í rauninni það eina sem ég hef um málið að segja og vil ekki tjá mig meira að svo stöddu,“ sagði Ólafur þegar 24 stundir náðu af honum tali í gær.

Hann bætti við að peningarnir hafi verið aukaatriði í málinu, enda hafi markmiðið einvörðungu verið að fá staðfest að um ólögmæta meingerð gegn persónu sinni hafi verið að ræða er hann var sviptur titlinum hér um árið.

„Þessi peningur skiptir svosem engu máli. Hann er bara þarna og ég er ekkert að spá of mikið í það,“ sagði Ólafur að lokum.

halldora@24stundir.is