Hindrun Íslenska krónan stefnir í að verða viðskiptahindrun, sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á Alþingi í gær.
Hindrun Íslenska krónan stefnir í að verða viðskiptahindrun, sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á Alþingi í gær. — Árvakur/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Höllu Gunnarsdóttur halla@mbl.is Á ÍSLAND að gerast aðili að Evrópusambandinu (ESB)? Er krónan ónýtur gjaldmiðill? Þetta var meðal þrætuepla á Alþingi í gær þegar utanríkisráðherra flutti skýrslu um Ísland á innri markaði Evrópu.

Eftir Höllu Gunnarsdóttur

halla@mbl.is

Á ÍSLAND að gerast aðili að Evrópusambandinu (ESB)? Er krónan ónýtur gjaldmiðill?

Þetta var meðal þrætuepla á Alþingi í gær þegar utanríkisráðherra flutti skýrslu um Ísland á innri markaði Evrópu. Sú nýbreytni að sérstök skýrsla sé flutt um Evrópumál mæltist almennt vel fyrir hjá þingmönnum og fram kom skýr krafa um að Alþingi kæmi meira að stefnumótun og ákvarðanatöku varðandi framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES). „Í raun sætir það furðu að þingið hafi sætt sig við að vera nánast afskipt í Evrópuumræðunni,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, og lagði áherslu á að þingið yrði ekki einungis þiggjandi gagnvart framkvæmdavaldinu í þessum efnum heldur tæki eigið frumkvæði.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra lagði áherslu á að EES-samningurinn væri fyrst og fremst alþjóðasamstarf á stjórnsýslustigi en að Ísland ætti engu að síður að reka hagsmunamál sín sem það væri aðildarríki.

Eilíf hamingja og sæla?

Ingibjörg sagði íslensku krónuna stefna í að vera viðskiptahindrun auk þess sem smæð gjaldmiðilsins kostaði almenning mikið. „Aðstæður knýja á um að allir stjórnmálaflokkar og forysta atvinnulífs og launþegahreyfinga hreinsi borðið – leiti fyrst sameiginlegs skilnings á aðstæðum og síðan nýrra lausna sem styrki Ísland til framtíðar,“ sagði Ingibjörg en áréttaði að einhliða upptaka evru væri útilokuð.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, lagði áherslu á að efnahagsvandræði líðandi stundar hefðu ekkert með krónuna að gera heldur hagstjórnarmistök, of háa verðbólgu og vexti. „Ef við ætlum inn í Evrópusambandið og myntbandalagið þurfum við hvort sem er að koma þessum hlutum í lag,“ sagði Steingrímur og minnti á að með aðild að ESB væri Ísland jafnframt að láta af sjálfstæðri hagstjórn. „Það er auðvitað ekki þannig að öll okkar vandamál gufi upp eins og dögg fyrir sólu og eilíf hamingja og sæla bíði okkar með því einu að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru.“

Tvíhöfða nefnd

Steingrímur varaði jafnframt við því að líta svo á að velgengni Íslands mætti einkum þakka EES-samningnum og Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, tók í sama streng hvað það varðaði. Benti hann á að í skýrslunni stæði að Ísland hefði gerst virkur þátttakandi í Evrópusamrunanum með aðildinni að EFTA árið 1970. Ferlið hefði því staðið í tæp fjörutíu ár en ekki endilega aðeins frá því að Ísland gerðist aðili að EES. „Kannski er sú ákvörðun ekki síður afdrifarík í þessum efnum,“ sagði Kristinn.

Siv Friðleifsdóttir, Framsókn, sagði skiptar skoðanir á mögulegri aðild vera innan síns flokks en að hennar skoðun væri að ekki ætti að sækja um að sinni en hugsanlega í framtíðinni. Hún setti jafnframt spurningarmerki við að áætluð nefnd um Evrópumál ætti að vera „tvíhöfða“, þ.e. með tvo formenn. „Hér blasir við trúnaðarbrestur milli ríkisstjórnarflokkanna,“ sagði Siv.

Í máli Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra kom fram að það hefði vantað upp á að Ísland nýtti þau úrræði sem það hefði til að standa vörð um hagsmuni sína á vettvangi Evrópu. „Einkennilegt er að fjargviðrast yfir því að Íslendingar hafi ekki áhrif á löggjafar- og reglusetningu á vettvangi Evrópusambandsins þegar á sama tíma er látið undir höfuð leggjast að nýta þau tækifæri til áhrifa sem eru fyrir hendi og um hefur verið samið,“ sagði Björn og áréttaði að Ísland yrði ekkert betur sett innan Evrópusambandsins ef ekki yrði lögð áhersla á að gæta íslenskra hagsmuna til hins ýtrasta.

Leiða nefnd um Evrópumál

ÁGÚST Ólafur Ágústsson, Samfylkingu, og Illugi Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki, munu leiða sérstaka nefnd um þróun Evrópumála sem á m.a. að skoða hvernig hagsmunum Íslands er best borgið í framtíðinni gagnvart Evrópusambandinu. Allir þingflokkar fá að tilnefna fulltrúa í nefndina auk ASÍ, Samtaka opinberra starfsmanna, Samtaka atvinnulífsins og viðskiptaráðs Íslands.