Horft til norðausturs Vesturgata liggur hægra megin við bygginguna, Ánanaust upp til vinstri. Húsin, sem fyrir eru, eru gul, nýbyggingin er brún. Vonast er til að framkvæmdir geti hafist sem fyrst.
Horft til norðausturs Vesturgata liggur hægra megin við bygginguna, Ánanaust upp til vinstri. Húsin, sem fyrir eru, eru gul, nýbyggingin er brún. Vonast er til að framkvæmdir geti hafist sem fyrst.
DEILISKIPULAG er tilbúið fyrir Héðinsreit svokallaðan. Reiturinn afmarkast af Mýrargötu, Ánanaustum, Vesturgötu og Seljavegi. Gert er ráð fyrir að þarna verði byggðar íbúðir fyrir eldri borgara.

DEILISKIPULAG er tilbúið fyrir Héðinsreit svokallaðan. Reiturinn afmarkast af Mýrargötu, Ánanaustum, Vesturgötu og Seljavegi. Gert er ráð fyrir að þarna verði byggðar íbúðir fyrir eldri borgara. Teikningar liggja nú fyrir hjá byggingarfulltrúa og bíða þess að verða samþykktar, sem mun taka einhvern tíma.

Á deiliskipulagsreitnum eru sjö lóðir í eigu Reykjavíkurborgar og einkaaðila, Héðinsreits ehf. Heimilt er að fjarlægja allar núverandi byggingar á lóðum við Vesturgötu og Ánanaust. Þegar hefur verið hafist handa við niðurrifið.

Landi hallar til vesturs og norðurs á svæðinu og hæðarmunur er um sex metrar á Seljavegi og Ánanaustum. Í greinargerð með deiliskipulagi segir að þessar aðstæður bjóði upp á lausnir sem gera ráð fyrir bílageymslu og atvinnuhúsnæði á neðri hæðum og íbúðum á efri hæðum.

Í nýbyggingum á reitnum er aðallega gert ráð fyrir íbúðum en atvinnustarfsemi heimil með takmörkunum. Hægt er að koma fyrir skrifstofum, verslun og þjónustustarfsemi.

Héðinshús stendur áfram

Gert er ráð fyrir aðkomu að nýbyggingum á sameinuðum lóðum frá öllum aðliggjandi götum; Seljavegi, Vesturgötu, Ánanaustum og Mýrargötu. Nýbygging að Seljavegi getur verið fimm hæða og miðað við landhalla geta hús við Ánanaust verið sjö hæða. Héðinshús mun standa áfram og nýbyggingar munu ná að því.

Guðni Pálsson, arkitekt hjá GP arkitektum, teiknaði húsið sem á að rísa á Héðinsreitnum og að hans sögn verða þar 176 íbúðir. „Þetta er smáhús,“ segir hann, „svona 32.000 fermetrar. Þarna verða íbúðir fyrir aldraða, með ákveðinni þjónustu.“ Stærðir íbúðanna verða á bilinu 70-140 fermetrar. Guðni lýsir húsinu svo að það nái að Héðinshúsinu, Seljavegi, fari svo niður Vesturgötuna, eftir Ánanaustum og fyrir hornið á Mýrargötu. „Þetta verður svona heill hringur og svo verður inngarður í miðju húsinu,“ segir hann.

Bílageymsla á neðstu hæð

Að Ánanaustum verður húsið sjö hæðir en fimm að Seljavegi, vegna hæðarmunar. Keyrt verður í bílageymslu frá Ánanaustum og hún verður niðurgrafin við Seljaveg.

„Á annarri hæð verður þjónusta, það er að segja matsalur, eldhús, auk þess sem gert er ráð fyrir hárgreiðslu, snyrtingu, möguleika á nuddi og aðstöðu fyrir lækni,“ segir Guðni og bætir við að um sé að ræða almenna þjónustu eins og gengur og gerist fyrir aldraða.

Að sögn Guðna er vonast til að framkvæmdir geti hafist sem allra fyrst. „Þetta er allt klöpp þannig að það tekur nokkra mánuði að grafa niður,“ segir hann.