Þrælahald er engin ný bóla á Íslandi. Það var stundað hér í tvær aldir, eða frá landnámi og vel fram yfir kristnitöku. Af því lifa fjölmargar frásagnir í Landnámu bæði og Sögunum.

Þrælahald er engin ný bóla á Íslandi. Það var stundað hér í tvær aldir, eða frá landnámi og vel fram yfir kristnitöku. Af því lifa fjölmargar frásagnir í Landnámu bæði og Sögunum. Ófá örnefni eru sprottin af þrælahaldi, þá ekki síst þegar þrælar hafa sloppið, verið eltir uppi og drepnir – en örnefnið setið eftir. Er skemmst að minnast upphafs Íslandsbyggðar og Hjörleifs, fóstbróður Ingólfs Arnarsonar sem þrælarnir drápu og hefnd Ingólfs lifir enn í nafninu Vestmannaeyjar (vel á minnst, af hverju heitir ferjan Herjólfur ekki Ingólfur?).

Það er annars athyglisvert um þræla eins og þeir birtast í þessum textum að þeir eru ýmist alveg passífir eða stórhættulegir vegna þess að þeir hafa engu að tapa og eru ekki með neinu móti venslaðir samfélaginu sem þeir eru staddir í.

Hvað réð því að þrælahald lagðist af? Var það kristnin eða einfaldlega að það borgaði sig ekki að halda þeim uppi? Lénsskipulagið kemur sér niður á hagrænna fyrirkomulag þar sem bændalýður er fjötraður við átthaga sína, óðalseigandinn hirðir af þeim skatt, en lætur þá sjálfa um að viðhalda sér og fjölga.

Og nú er talað um að þrælahald hafi verið endurvakið á Íslandi. Hvað er átt við með því? Að erlendum verkamönnum er hingað stefnt til að vinna á lægri launum og búa við snöggtum lakari kjör en tíðkast meðal landsmanna. Eins og kunnugt er hafa stjórnvöld staðið fyrir framkvæmdum sem hafa útheimt vinnuafl í svo gríðarlegum mæli að ekkert útlit var fyrir að innlendir önnuðu þeirri eftirspurn, auk þess sem vinnuskilyrði voru slík að lítil von var til að þau freistuðu innfæddra.

Hver skyldu viðhorf hins langt að rekna verkamanns vera? Hann talar ekki málið, á engan snertiflöt við menningu eða sögu þjóðarinnar sem fyrir er, er ekki á neitt hátt venslaður. Enn öðru máli gegnir svo um glæpagengi sem hafa spottað Ísland sem sérlega kjörinn vettvang fyrir starfsemi sína vegna hinnar kardemommisku löggæslu þar sem menn geta brotið af sér, fengið dóm og ferðast síðan á tourist class úr landi. Í þessu sambandi vekur athygli sú krafa að ekki sé greint frá þjóðerni þeirra sem fremja óhæfuverk – af tillitssemi við samlanda þeirra hér búsetta og blásaklausa. Þannig minnist t.a.m. Morgunblaðið ekki á það einu orði í ítarlegri frétt af fólskulegri árás á lögreglumenn við skyldustörf í miðbænum 15. janúar sl., að árásarmennirnir hefðu verið erlendir. Einhvern tímann hefði þetta verið kallað að stinga höfðinu í sandinn. Varðar okkur þá ekki um þróun mála hér? Nú er óþarft að taka fram að útlendingar sem hingað kjósa að flytjast eru aufúsugestir, að því tilskyldu að þeir sitji við sama borð og aðrir landsmenn um réttindi og kjör. Miklu ber að kosta til að aðlögun þeirra og barna þeirra gangi sem greiðast fyrir sig. En það er ábyrgðarleysi fullkomið að moka hingað í stórum stíl fólki sem á að hraðnýta og henda síðan. Pólitík sem er ætlað að þjóna skammsýnustu gróðasjónarmiðum þeirra sem hyggjast arðnýta þetta vinnuafl á niðursettu verði. En vandinn sem það skapar hinum aðkomnu og þeim sem fyrir eru verður dýrkeyptur og hætt við að menn verði að stinga höfðinu æ dýpra í kviksyndið til að sjá það hvorki né heyra.