Börn jafnt sem fullorðnir geta orðið bílveik en það getur verið erfiðara að fást við slíkt með lítil börn sem verða hrædd og vilja kannski ekki þurfa að kasta upp.

Börn jafnt sem fullorðnir geta orðið bílveik en það getur verið erfiðara að fást við slíkt með lítil börn sem verða hrædd og vilja kannski ekki þurfa að kasta upp. Stuttar bílferðir geta nægt til að börnin verði bílveik en ferðaveiki skapast af síendurteknum hreyfingum farartækisins sem hafa áhrif á jafnvægisskyn okkar. Skilaboð berast frá miðju eyrans til heilans um að líkaminn sé á hreyfingu en á meðan senda augun þau boð að líkaminn sé í kyrrstöðu.

Hlykkjóttir vegir verstir

Hlykkjóttir og holóttir vegir hafa yfirleitt einna verst áhrif á bílveiki og eins er sjóveiki algeng þegar báturinn gengur upp og niður í öldugangi. Einnig verða sum börn flugveik sem getur skapast af stressi og hræðslu við flugið. Til að draga úr bílveiki er nóg af hreinu lofti mikilvægast. Reyndu því að hafa gluggann opinn eða rifu á honum eins og hægt er. Þá skaltu passa að barnið borði ekkert sem er þungt í maga fyrir eða á meðan að ferðalaginu stendur. Reyndu síðan að láta barnið einbeita sér að einhverju fyrir framan sig sem er dálítið langt í burtu. Þannig dregur úr ósamræmi á milli sjónar og heyrnar. Alls ekki láta barnið lesa því það er yfirleitt talið leiða til bílveiki og reyndu að hafa ofan af fyrir barninu eins og hægt er.

Bara eitt að gera

Ef barnið er við að kasta upp skaltu nema staðar ef þú getur og koma barninu út. Það er líka skemmtilegra fyrir alla í bílnum. Annars þarf bara að vera með nóg af plastpokum, blautþurrkum og tissjúi hjá barninu. Ef barnið er of ungt til að sjá um sig sjálft verður einhver að sitja aftur í hjá því og hjálpa til.