Jónas Bjarnason
Jónas Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jónas Elíasson og Jónas Bjarnason fjalla um íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið: "Kvótakerfið hefur mistekist, það er orðið 4xó og hrun nálgast. Forsætisráðherra kveðji saman fiskiþing um umhverfisvænt veiðistjórnunarkerfi."

FISKVEIÐISTJÓRNUNIN á í basli og þorskveiðar eru komnar í þriðjung af því sem var; kvótakerfið hefur misheppnast. Farið var af stað með góðum ásetningi um vísindalega stjórnun með sjálfbærri veiði, hagkvæmni og treystingu byggða. Öll slík áform hafa brugðist. Svo mjög er gengið á höfuðstólinn að útreikningar um hagkvæmni eru úreltir; auk þess hafa byggðir raskast verulega. Gengið er á auðlindir hafsins og þeim stefnt í tortímingu og frekari röskun.

Enn ein stoðin hrundi þegar Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna úrskurðaði, að fiskveiðistjórnunin feli í sér brot á mannréttindum íslenskra sjómanna. Engin útgerð eða sjómenn geta hafið veiðar án þess að kaupa kvóta af öðrum útgerðum fyrir stórfé og sjómenn á slíkum skipum hafa miklu lægra kaup en hinir, sem hafa ókeypis heimildir frá stjórnvöldum. Rætur þessa misréttis felast í því, að samþykkt voru lög um heimildir til að framselja kvóta á milli aðila árið 1991. Allt var það gert að sögn til að auka hagkvæmni, en í gjörningnum fólst afdrifarík og einstæð breyting í atvinnumálum á Íslandi. Ein elstu atvinnuréttindin eru komin á markað, en í engri annarri grein að gagni. Þegar kvótahafar flytja frá útgerðarstöðum með kvótann eða selja hann burt, þá er fólkið atvinnulaust og misrétti orðið alvarlegt. Þessi þróun stangast alvarlega á við réttarvitund fólks og markmið laganna. Þá fer kvótaleigufiskurinn á innanlandsmarkað svo í þessu felst í reynd heimild til skattlagningar á fiskneyslu.

Skýringar á misréttinu felast í vilja löggjafans til að sameina hagkvæmni og verndun þorskstofnsins. En vandamál hafa hrannast upp og margt bendir til þess, að enn eigi þorskurinn eftir að skerðast og engin lausn sé í sjónmáli. Viðvarandi stærðarval í botnvörpu- og dragnótaveiðum hefur valdið minnkuðum breytileika og erfðatjóni. Sjá má það með lækkuðum kynþroskaaldri, en það er talin næsta áreiðanleg vísbending. Slíkt skakkafall gæti tekið hálfa öld að komast í samt lag þó veiðar verði stöðvaðar sbr. Kanada.

Íslenska tilraunin er um margt sérstök og það eru vonbrigði, að hún skuli hafa mistekist. Sambærileg fiskveiðistjórnun hefur bara verið í tveimur löndum öðrum, Kanada og Nýja-Sjálandi, en þar eru helstu fiskstofnar að hruni komnir. Þungur undirróður pólitískra hugmyndafræðinga hefur verið um peningalega stjórnun fiskveiða, en því miður eru engar líkur að hún takist fyrir botnfiskveiðar. Nauðsynlegt er að taka upp veiðileyfi, sem eru bundin vistvænum og árstímabundnum veiðiaðferðum.

Við teljum okkur þekkja afstöðu landsmanna nokkuð vel eftir ítrekaðar skoðanakannanir og við höldum því fram, að þrír fjórðu séu í raun andvígir kvótakerfinu enda þótt nauðsyn til verndunar stofnsins fyrir ofveiði sé augljós. Það verður að horfast í augu við þá staðreynd, að kvótakerfið virkar ekki. Þetta kerfi er orðið 4xó, það er ósanngjarnt, óhagkvæmt, óvistvænt og núna síðast ólöglegt. Er til verðugra verkefni fyrir landsstjórnina en takast á við þetta?

Ekki er hægt að benda á neina eina lausn í þessu sambandi. Taka verður upp kerfisbundna veiðistjórnun á einstökum svæðum með áskilinni veiðafæranotkun eftir tímabilum. Hóflegt veiðigjald renni til rannsókna, sem þarf að stórauka í því skyni að stækka fiskstofna og bæta veiðiþol. Með þessu móti verður þrýstingur á úthlutun heimilda minnkaður og réttindi sjómanna jöfnuð. Breyta verður stefnu um fiskveiðistjórnun þannig, að núverandi veiðiheimildum verði skipt í tvo flokka, vistvænar og óvistvænar. Þær vistvænu haldi áfram en hinar innkallaðar með árlegri fyrningu og þær endurúthlutaðar að hluta.

Það hefur verið undarlegt hversu auðmjúkir allir sjávarútvegsráðherrar hafa verið gagnvart kvótakerfinu og, að því er virðist, umsvifalaust tekið afstöðu komnir í ráðuneytið. Árni M. Mathiesen fór vel af stað og hélt tvær ráðstefnur um fiskveiðimál. Fenginn var erlendur sérfræðingur til ráðgjafar um útreikninga og veiðistjórnun. Hann reyndist ekki upplýstur um þýðingu erfðabreytinga þá, en ritaði tveimur árum síðar undir áskorun um bann við botnvörpuveiðum á heimshöfunum ásamt 1135 öðrum þekktum vísindamönnum, en hér var haldið áfram á sömu braut. Það er með eindæmum hversu ragir íslenskir vísindamenn hafa verið í því að gera greinarmun á veiðarfærum og afleiðingum þeirra, en þeim hefur ekki auðnast að koma sér saman um skaðleg áhrif botnvörpunnar þótt tillögur um bann við þeim hafa hrannast upp hjá Sameinuðu þjóðunum. Fyrir um tveimur árum stöðvaði Ísland eina tillöguna og var gagnrýnt í heimspressunni fyrir bragðið.

Við viljum beina þeim tilmælum til forsætisráðherra, að hann beiti sér fyrir stóru og vel undirbúnu fiskiþingi þar sem hagsmunaaðilar og fræðimenn komi saman í því augnamiði að gera tillögur til ríkisstjórnarinnar um aðgerðir sem allra fyrst. Þingið sitji í viku og kjósi þá starfsnefnd til að móta endanlegar tillögur. Þeim verði síðan fylgt eftir með frumvarpi til laga um vistvæna stjórnun fiskveiða.

Jónas Elíasson er prófessor. Jónas Bjarnason er efnaverkfræðingur.