Vistaskipti Ellý yfirgefur Sviðsljósið og færir sig yfir til Ingva Hrafns Jónssonar á ÍNN.
Vistaskipti Ellý yfirgefur Sviðsljósið og færir sig yfir til Ingva Hrafns Jónssonar á ÍNN. — Morgunblaðið/Kristinn
ÞULAN, blaðakonan, stjörnubloggarinn og nú sjónvarpsþáttastjórnandinn Ellý Ármanns hefur sagt skilið við Sviðsljósið á mbl.is.

ÞULAN, blaðakonan, stjörnubloggarinn og nú sjónvarpsþáttastjórnandinn Ellý Ármanns hefur sagt skilið við Sviðsljósið á mbl.is. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Morgunblaðsins hefur Ellý ráðið sig til netsjónvarpsstöðvarinnar ÍNN sem Ingvi Hrafn Jónsson stýrir en þar eru fyrir fjölmiðlakonurnar Kolfinna Baldvinsdóttir og Ólína Þorvarðardóttir auk annarra frétta- og fræðimanna.

Síðasta Sviðsljóssfærslan var skrifuð í gær og síðasti dálkur Ellýjar á baksíðu 24 stunda birtist í dag. Ellý hefur nú staðið vaktina í Sviðljósinu frá október á síðasta ári.

Vefsíðan þótti nokkuð vinsæl og oftar en ekki tók Ellý málefni líðandi stundar með eilítið öðruvísi hætti en gengur og gerist.

Ellý sló eftirminnilega í gegn á síðasta ári þegar hún varð langvinsælasti bloggari landsins en á tímabili voru um 10.000 manns fastagestir á bloggi hennar, ellyarmanns.blog.is. Ellý skrifar gjarnan um samskipti kynjanna og þá sérstaklega um reynslu vinkvenna sinna af karlmönnum.

Síðustu fregnir herma að framleiðslufyrirtækið Pegasus hafi keypt framleiðsluréttinn á bloggi Ellýjar en hugmyndin er að framleiða þætti á borð við bandarísku sjónvarpsþættina Sex and the City . Enn verður hægt að lesa Sviðsljósið og skoða gömul myndskeið á svidsljos.is.