Tjarnarkvartettinn er ekki heilagar kýr SORGLEGT er þegar góður penni eins og Hrafn Jökulsson vill kveða í kútinn umræðu um ósæmilega framkomu fólks á áheyrnarpöllum, þegar skipt var um borgarstjóra í Reykjavík.

Tjarnarkvartettinn er ekki heilagar kýr

SORGLEGT er þegar góður penni eins og Hrafn Jökulsson vill kveða í kútinn umræðu um ósæmilega framkomu fólks á áheyrnarpöllum, þegar skipt var um borgarstjóra í Reykjavík. Hann kallar okkur öll sem urðum hvumsa við, leyfðum okkur að hafa skoðun, „nóta“ Morgunblaðsins. (24 stundir, 26.1.)

Það er aðför að málfrelsi að verðandi borgarstjóri fékk ekki frið til að segja nokkur orð fyrir ópum og orgum andstæðinga sinna! Það er aðför að tjáningarfrelsi þegar fráfarandi borgarstjóri Dagur B. Eggertsson fékk hljóð með ræðu sína en ekki Ólafur F. Magnússon, verðandi borgarstjóri. Það er aðför að lýðræðinu þegar fólk getur ekki látið í ljós skoðanir sínar nema með ópum og orgum!

Undarlegt að þeir sem studdu Dag B. Eggertsson/Tjarnarkvartettinn voru mest áberandi í skrílslátunum. Það vekur upp grunsemdir um að ef til vill hafi verið smalað til fundarins „réttum aðilum“. Enda tók Dagur borgarstjóri undir og skildi svo ósköp vel að áheyrendum fundarins væri nóg boðið „valdaránið“. Hafði hann og hans lið ekki „framið valdrán“ fyrir hundrað dögum? Greinilega gat Dagur B. Eggertsson illa sætt sig við að verða aðeins „hundrað daga borgarstjóri“.

Þá notar Hrafn breska þingið til að réttlæta skrílslætin. Undarleg rök þar. Eru þetta ekki utanaðkomandi „skósveinar“, sem eru með framíköll til þeirra sem eru „óæskilegir“, eins og átti sér stað á umræddum borgarstjórnafundi.

Reykjavík er ekki aðeins í 101. Hún er höfuðborg landsins og öllum kemur við hvernig þar er á málum haldið, hvort sem það eru sjálfstæðismenn – eða Tjarnarkvartettinn sem Hrafn vill greinilega meðhöndla eins og heilagar kýr sem ekki má andmæla.

Sigríður Laufey Einarsdóttir,

íbúi í Kópavogi.

Enginn sími í Leifsstöð

Mig langar að spyrja hvort almenningssímaleysi sé tímabundið ástand í Leifsstöð meðan á framkvæmdum stendur eða er þetta til frambúðar?

Guðjón Guðjónsson.

Umferðarbrot

Er ekki sátt við að ekki sé farið eftir einstefnumerkingum hér í Keflavík. Ég bý í einstefnugötu og er mikið keyrt á móti einstefnu hér. Núna í morgun rétt fyrir kl. 8 á álagstímanum þá kom einn á móti og sá sem kom rétt inn götuna lenti nærri á þeim sem kom á móti. Núna er snjór og erfitt að keyra, samt er komið á móti einstefnunni.

Hvernig væri að löggan væri aðeins meira sýnileg hér við þessar götur sem eiga að heita einstefnugötur?

Við hjónin höfum oft lent í vandræðum vegna svona brota.

DB.


Svarað í síma 5691100 frá 10-12 og 13-15 | velvakandi@mbl.is