Pælingar Fjöldi sérfræðinga alls staðar að úr heiminum fylgdist með kynningu á uppgjöri Kaupþings í gær, í sal, á netinu og í gegnum síma.
Pælingar Fjöldi sérfræðinga alls staðar að úr heiminum fylgdist með kynningu á uppgjöri Kaupþings í gær, í sal, á netinu og í gegnum síma.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
KAUPÞING hagnaðist um 71,2 milljarða króna á árinu 2007 og er það um 18% samdráttur í hagnaði frá fyrra ári.

KAUPÞING hagnaðist um 71,2 milljarða króna á árinu 2007 og er það um 18% samdráttur í hagnaði frá fyrra ári. Hagnaður hluthafa bankans nam 70 milljörðum og arðsemi eigin fjár var 23,5%

Á fjórða ársfjórðungi reyndist hagnaður bankans vera tæpir 9,7 milljarðar og er það aðeins helmingur af hagnaði sama fjórðungs árið áður, en samt sem áður yfir væntingum greiningardeildanna.

Rekstrartekjur bankans drógust lítillega saman árið 2007 miðað við árið á undan. Það er vegna mikils samdráttar í gengishagnaði en hann nam röskum 14 milljörðum á árinu og dróst saman um 76%. Ástæðan er fyrst og fremst lækkun á verði afleiða og skuldabréfa í eigu bankans sem skilaði sér í gengistapi í reikningunum auk þess sem minni hagnaður var af hlutabréfaeign en árið áður. Töluvert gengistap var af fjórða ársfjórðungi, röskir 12 milljarðar króna, þar af er bókfært tap af skuldabréfum á Íslandi 5,5 milljarðar en ríflega 2 milljarða gengishagnaður var af hlutabréfum á Íslandi.

Þrátt fyrir samdráttinn í rekstrartekjum var aukning hreinna vaxtatekna 53% milli ára en 60% á fjórða ársfjórðungi. Þriðjungur hreinna vaxtatekna bankans er frá Íslandi kominn og litlu minna, 30%, kemur frá Bretlandi. En tekjurnar þaðan hafa nær tvöfaldast á árinu.

Hreinar þóknunartekjur námu 55 milljörðum á árinu og er það aukning um nær 48% en á fjórða ársfjórðungi nam aukningin 19%. Tveir fimmtu hlutar hreinu þóknunarteknanna urðu til á Íslandi og 30% í Bretlandi. Rekstrargjöld jukust alls um nær þriðjung milli ára og voru tæpir 79 milljarðar. Aukningin er sögð vegna mikillar fjölgunar starfsmanna, en launakostnaður jókst um 39%, og almennrar aukningar í umsvifum flestra starfsstöðva bankans.

Efnahagur Kaupþings stækkaði um 32% árið 2007 og nema heildareignir bankans 5.347 milljörðum króna. Útlán til viðskiptavina voru um áramót 3.304 milljarðar, þar af voru hátt í 86 milljarðar á yfirdrætti. 30% aukning var á útlánum. 17% lántaka eru einstaklingar og tæp 5% útlána bankans eru íbúðalán sem nema 158 milljörðum króna. Innlán námu 1,4 milljarði í lok árs og höfðu aukist um 84%. Hlutfall innlána af útlánum til viðskiptamanna hækkaði í 42%, en var í byrjun árs tæp 30%.

Bregðast fljótt við

HREIÐAR Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, segir árið hafa verið gott þótt vandi á alþjóðlegum fjármálamarkaði hafi sett mark sitt á seinni hluta árs. Hann boðar breyttar áherslur í ár til að bregðast við óhagstæðu rekstrarumhverfi.

„Fyrirtæki hljóta að bregðast við breyttum aðstæðum,“ segir Hreiðar Már. „Það eru ekki stærstu og sterkustu fyrirtækin sem lifa af. Það gera þau sem eru fljót að lagast breyttum aðstæðum. Aðstæður eru breyttar, það er ljóst, og vöxtur bankans verður minni á þessu ári en var í fyrra. Það er mikilvægt að vera undir það búinn m.a. með því að lækka kostnað.“ Áhersla hefur verið aukin á inn lán og í október hóf bankinn starfsemi innlánabanka á netinu fyrir almenning sem kallast Kaupthing Edge og nær nú til fimm landa.

Hreiðar segir þetta hafa skilað sér í nærri 30 þúsund viðskiptavinum í innlánaviðskipti. Hlutfall innlána af útlánum viðskiptavina hafi aukist í 42% í fyrra og stefnt sé að 50% í ár. „Það verður gert með sambærilegum aðferðum og í fyrra auk þess sem farið verður inn á fleiri markaði með Kaupthing Edge.“ Hreiðar segir lausafjárstöðu bankans sterka, „Í lok síðasta árs vorum við með lausafjárstöðu til að mæta afborgunum næstu 440 daga. Þrátt fyrir að markaðir séu lokaðir þá bitnar það ekki á okkur. En ég tel að bankar almennt verði að búa sig undir að þessir markaðir verði lokaðir enn um sinn.“

soffia@mbl.is