Það eru ekki margir tölvuleikir sem gerast á Íslandi. Þetta mun þó breytast í haust þegar tölvuleikurinn Resistance 2 lítur dagsins ljós en leikurinn hefst á Íslandi.

Eftir Viggó I. Jónasson

viggo@24stundir.is

Það er ekki á hverjum degi sem íslenskir tölvuleikjaunnendur fá tækifæri til að spila tölvuleik sem gerist á Íslandi. Í árslok munu Playstation 3-eigendur hins vegar fá einstakt tækifæri til að berjast við ófreskjur á íslenskri grund en hluti af tölvuleiknum Resistance 2 mun gerast á Íslandi. Hulunni var svipt af leiknum fyrir fáeinum vikum og ríkir gríðarleg eftirvænting meðal Playstation 3-eigenda eftir leiknum.

Flóttinn frá Íslandi

Ekki er vitað mikið um hversu stór hluti af leiknum gerist á Íslandi en framleiðandi leiksins, Insomniac Games, verst allra frétta varðandi leikinn og vildi þar af leiðandi litlu svara þegar 24 stundir leituðu eftir svörum. Talsmaður fyrirtækisins sagði þó að öll skjáskot úr leiknum, sem birt hafa verið, séu tekin úr íslenska hluta leiksins.

Resistance 2 er framhald af leiknum Resistance: Fall of Man sem kom út fyrir Playstation 3 á síðasta ári. Í leiknum fóru menn í fótspor bandarísks hermanns sem hélt til Englands til að berjast við ófreskjur sem voru langt komnar með að leggja undir sig alla Evrópu. Í Resistance 2 fara menn aftur í hlutverk sömu hetju en að þessu sinni hafa skrímslin hafið innrás inn í Bandaríkin.

Það er í upphafi leiksins sem Ísland fær að njóta sín. Þyrla, sem er að flytja hetju leiksins til Bandaríkjanna, er skotin niður yfir Íslandi og þarf hann að sleppa úr landi áður en ófreskjurnar ná að leggja landið endanlega í rúst.

Hasarinn í Keflavík?

Af þeim skjáskotum sem birst hafa má glöggt sjá að hinn íslenski vígvöllur mun vera í grennd við bandaríska herstöð; hvort það er Keflavík eða einhver ímynduð herstöð er ekki vitað.

Fyrri Resistance-leikurinn treysti mikið á raunverulegar byggingar, svo sem dómkirkjuna í Manchester, til að hafa trúverðugan vettvang fyrir hasarinn og því er allt eins líklegt að raunveruleg íslensk mannvirki eða bæir komi við sögu í þessum stórleik.

Í hnotskurn
Insomniac Games er eitt virtasta leikjafyrirtækið sem framleiðir einvörðungu leiki fyrir Sony-leikjavélarnar. Fyrirtækið hefur meðal annars sent frá sér hina geysivinsælu Ratchet & Clank-leikjaseríu.