Leikritið Hetjur eftir franska leikskáldið Gerald Sibleyras verður frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins í dag í leikstjórn Hafliða Arngrímssonar.
Leikritið Hetjur eftir franska leikskáldið Gerald Sibleyras verður frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins í dag í leikstjórn Hafliða Arngrímssonar. Leikurinn gerist árið 1959 og sögusviðið er elliheimili þar sem þrír uppgjafahermenn úr fyrri heimsstyrjöldinni dvelja saman og leggja undir sig bakgarð þar sem enginn annar má koma. „Þetta er grátbroslegt verk um menn sem hafa misst af lífinu ef svo má segja,“ segir leikstjórinn Hafliði. „Til þess að varna því að aðrir komi út á veröndina þeirra beita þeir varnaðaraðgerðum eins og í styrjöldinni, enda kunna þeir ekkert annað. Þeir eiga allir við ákveðin óafmáanleg vandamál að stríða í kjölfar styrjaldarinnar. Einn er með sprengjubrot í hausnum, annar með ónýtan fót og sá þriðji er taugaveiklaður og félagsfælinn.“ En þrátt fyrir allt láta þeir sig dreyma. „Þeir horfa á Alpana og láta sig dreyma um ferðalög og kvenfólk, sem lítið er af í kringum þá,“ segir hann.