Þorvaldur Kristinsson er fæddur í Hrísey 19. júní 1950.

Þorvaldur Kristinsson er fæddur í Hrísey 19. júní 1950. Hann nam íslensku og almenna bókmenntafræði við HÍ og Háskólann í Kaupmannahöfn og hefur í aldarfjórðung starfað sem bókmenntaritstjóri, fyrst við ýmis forlög í Reykjavík, en nú sem sjálfstæður ritstjóri og rithöfundur. Frá árinu 1982 hefur Þorvaldur starfað með hreyfingu samkynhneigðra á Íslandi, hann hefur þrívegis gegnt formennsku í Samtökunum '78, sinnt fræðastarfi og kennslu.

Tiina Rosenberg, prófessor við Háskólann í Lundi, heldur fyrirlestur í stofu 101 í Odda í dag kl. 12.15. Fyrirlesturinn er sá fyrsti í röðinni Með hinsegin augum , en í tilefni af 30 ára afmæli sínu hafa Samtökin ‘78, í samstarfi við ýmsar stofnanir HÍ, fengið til liðs við sig fræðimenn sem bregða munu upp hinsegin gleraugum á heiminn.

Þorvaldur Kristinsson er einn af skipuleggjendum dagskrárinnar, en þetta er í þriðja sinn sem Samtökin '78 efna til fyrirlestraraðar af þessu tagi: „Fyrirlestrarnir hafa notið óvenjumikilla vinsælda, og vonandi tekst okkur hér að skapa hefð í samstarfi við fræðasamfélagið,“ segir Þorvaldur. „Margar mikilvægustu framfarir í mannréttindamálum samkynhneigðra tengjast beinlínis framlagi fræða og rannsókna, og eiga stofnanir HÍ og aðrir samstarfsaðilar þakkir skildar fyrir stuðning sinn við framtak okkar.“

Erindi sitt kallar Tiina A Queer Feminism – The Lesbian Feminist Heritage in Queer Studies : „Þar lýsir hún sýn sinni á þróun hinsegin fræða frá 1990, og hvernig fræðigreinin hefur á gagnrýninn hátt svipt hulunni af valdbeitingu gagnkynhneigðarinnar,“ útskýrir Þorvaldur. „Sérstaklega ætlar Tiina að skoða þá lesbísku og femínísku arfleið sem hinsegin fræði og hinsegin femínismi hafa þegið.“

Alls verða fluttir sex fyrirlestrar næstu mánuði. „Næstur er Björn Þorsteinsson heimspekingur, sem 15. febrúar varpar fram þeirri spurningu hvort hægt sé að vera hinsegin innan samfélagsgerðar sem breytir mótþróa jafnóðum í stuðning við ríkjandi ástand,“ segir Þorvaldur. „Árni Heimir Ingólfsson flytur erindi 29. febrúar um fjögur heimsfræg tónskáld og spyr hvort kynvitund þeirra endurspeglist í tónlistinni sem þau sköpuðu.“

Þann 14. mars ætlar Sigrún Sveinbjörnsdóttir að fjalla um gagnkynhneigðarviðmið í skólum, og 29. mars ræðir dr. Oliver Phillips um tengsl kynhneigðar, þjóðernisvitundar og mannréttinda. „Loks mun Annadís Greta Rúdolfsdóttir flytja erindi 11. apríl, þar sem hún segir frá rannsóknum sínum á stuðnings- og sjálfshjálparbókum sem ætlaðar eru aðstandendum lesbía og homma,“ segir Þorvaldur að lokum.

Upplýsingar á: www.samtokin78.is.