AÐEINS munaði um tveimur prósentustigum á fylgi Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt var í gær.

AÐEINS munaði um tveimur prósentustigum á fylgi Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt var í gær. Þá sögðust tæplega 70% styðja núverandi ríkisstjórn, þar af sögðust 94,1% kjósenda Sjálfstæðisflokksins styðja stjórnina og 82% samfylkingarmanna.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist 36,7% sem er nánast jafnmikið fylgi og flokkurinn fékk í alþingiskosningunum 2007. Fylgi Samfylkingarinnar mældist 34,8 sem er mun meira en í alþingiskosningunum en þá hlaut flokkurinn 26,8% atkvæða.

Samkvæmt könnuninni fengi Sjálfstæðisflokkurinn 25 þingmenn, einum fleiri en hann er með nú, en Samfylkingin myndi bæta við sig fimm þingmönnum en þar með myndi þingflokkurinn stækka úr 19 í 24, að sögn Fréttablaðsins.

Fylgi Vinstri grænna eykst frá kosningum en minnkar frá síðustu könnun en nú sögðust 15,4% kjósa flokkinn sem myndi samkvæmt því bæta við sig einum þingmanni.

Fylgi Framsóknarflokksins er svipað og í síðustu könnun eða 8,9% en það er þremur prósentustigum minna en í kosningunum 2007. Þingmönnum Framsóknarflokksins myndi því fækka um einn. Fylgi Frjálslynda flokksins mældist aðeins 3,6% en flokkurinn fékk 7,3% í kosningunum. Fylgið nú myndi ekki duga til að flokkurinn fengi mann kjörinn, bendir Fréttablaðið á.