Bjarni Harðarson
Bjarni Harðarson
Bjarni Harðarson segir pólitíska umræðu hafa verið ómálefnalega og rætna að ndanförnu: "Fyrr hélt ég að fiskar gengju á land en ég sæi dómsmálaráðherra Björn Bjarnason skipa sér í þennan flokk með umræðu um fatamál Framsóknarflokksins."

STJÓRNMÁL á Íslandi hafa lifað eina af sínum verstu vikum og víst er að við framsóknarmenn höfum þar ekki farið varhluta af ómálefnalegri og rætinni umræðu. Umræðu sem kemur stjórnmálum í raun og veru ekki við. Flest var þar að vonum ef frá er talin þátttaka nokkurra kjörinna þingmanna í sjónarspili sem í reynd var langt fyrir neðan þeirra virðingu.

Skrif hæstvirts byggðamálaráðherra Össurar Skarphéðinssonar komu ekki stórlega á óvart enda varðveitir hann sína unglingslegu uppreisnarsál með næturbloggi sínu og slettir þá jafnt á eigið stjórnarráð og annarra verk. Vitaskuld eru fullyrðingar hans um að vinnubrögð örfárra framsóknarmanna í Reykjavík séu á ábyrgð Framsóknarflokksins ekki svaraverð og sambærileg sumu því versta sem birtist hér í síðdegispressu.

En fyrr hélt ég að fiskar gengju á land en ég sæi dómsmálaráðherra Björn Bjarnason skipa sér í þennan flokk með umræðu um fatamál Framsóknarflokksins. Björn hefur í senn verið og er í mínum huga einn besti ráðherra ríkisstjórnarinnar og í röð fremstu bloggara landsins. Það er því með miklum ólíkindum að lesa inni á síðu dómsmálaráðherrans í pistli 19. janúar að hann telji endemisumræðu Guðjóns Ólafs Jónssonar sýna að Framsóknarflokkurinn eigi ekki lengur pólitískt erindi á Íslandi. Í framhaldi af því rifjar ráðherrann upp öll ummæli helstu leikenda í Reykjavík, þeirra Guðjóns, Björns Inga og Önnu Kristinsdóttur. Með myndskreytingum gæti pistillinn sómt sér vel á síðum Séð og heyrt en stingur í stúf á hinni um margt góðu heimasíðu ráðherrans.

Í pistlinum 19. janúar vitnar Björn í áramótapistil um pólitíkina þar sem hann ræðir um meint erindisleysi Framsóknarflokksins í stjórnmálum. Öll er sú umræðu lituð af sárindum vegna meirihlutasamstarfs í Reykjavík sem sprakk á síðasta ári. Hvergi er vikið að málefnaafstöðu flokksins á landsvísu. Með sömu rökum mætti taka undir með æstum sósíalistum sem segja atburði síðustu daga í borgarmálum sanna að Sjálfstæðisflokkurinn í heild sé ómerkileg valdaklíka. Kannski er hægt að rökstyðja það en gjörðir einnar sveitarstjórnar í landinu sanna ekkert né afsanna í þeim efnum. Sjálfstæðisflokkurinn er stærri en svo.

Sá sem hér skrifar hefur margoft skrifað um hugsjónir Framsóknarflokksins, skilin milli stjórnmálaflokkanna á Íslandi og nauðsynlegt hlutverk framsóknarmanna í þeirri mynd. Miðjuflokkarnir á Íslandi eru tveir, Framsóknarflokkur og Samfylking. Framsókn er ábyrgt stjórnmálaafl með þjóðlega taug og tengsl við bæði landsbyggðina og atvinnulífið í landinu. Björn Bjarnason og félagar hans í Sjálfstæðisflokki komast nú að því fullkeyptu að allt þetta eru eiginleikar sem skortir á í Samfylkingunni þar sem tengsl þess flokks við atvinnulífið eru jafnvel minni en var í gamla Alþýðubandalaginu. Ekkert er nú gert í efnahagsmálum í samstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og það eitt sýnir þá þörf sem er fyrir ábyrgan og traustan miðjuflokk. Tímabundin fylgislægð er ekki dauðadómur í lífi Framsóknarflokksins.

Framsóknarflokki verður ekki skákað út úr þessari mynd með umræðu um fatareikninga og það jaðrar við pólitíska lágkúru að notast við slíkan málflutning. Það er nöturlegt að jafnvel ráðherrar annarra flokka skuli að þarflausu óhreinka sig hér á þarflítilli fataumræðu.

Höfundur er alþingismaður.