Brezka leikkonan Julie Christie varð snemma eitt af uppáhöldum Víkverja og því getur hann ekki annað en glaðzt við að hún skuli nú tilnefnd til Óskarsverðlauna.

Brezka leikkonan Julie Christie varð snemma eitt af uppáhöldum Víkverja og því getur hann ekki annað en glaðzt við að hún skuli nú tilnefnd til Óskarsverðlauna. Julie Christie hefur líka komið til Íslands og á góða vinkonu í Guðnýju Halldórsdóttur fyrir vikið. Guðný sagði frá því í blaðasamtali í vikunni, að eitt sinn er þær hittust í London hafi þær keypt hermannaúlpu og alpahúfu svo Christie gæti farið leynt og svo fóru þær á pöbbana. Mikið hefði Víkverji viljað vera með í því pöbbarölti.

En fyrst Víkverji er nú að opna hjarta sitt gagnvart brezkum leikkonum, þá verður hann að nefna tvær aðrar; Judy Dench og Maggie Smith. Hvílíkar leikkonur! Víkverji hefur átt þess kost að sjá þær á sviði í London og það eru svo sannarlega ógleymanlegar stundir. Þessar drottningar leiksins hafa báðar hlotið óskarsverðlaun fyrir leik sinn og Dench m.a. fyrir nokkurra mínútna leik í Shakespeare in love. Þar sannaðist svo um munar að magn er ekki sama og gæði!

Víkverji tekur heilshugar undir Ljósvakapistil Sigtryggs Sigtryggssonar í Morgunblaðinu í gær, þar sem hann hvetur til þess að gerðir verði sjónvarpsþættir um aflaskipstjóra.

Víkverji ólst upp við síldarsumur og honum eru minnisstæðir skipstjórarnir sem börðust um aflakóngstitilinn. Þeir voru stjörnur þess tíma; fólk leit upp til þeirra og það þótti viðburður að sjá þessa menn á götu. Þegar Víkverji lítur um öxl rennur hvert nafnið á fætur öðru framhjá. Eitt sumarið fóru Víkverji og leikbræður hans í keppni um það hver hitti flesta skipstjóra og svo voru gefin stig eftir stöðu viðkomandi í aflakóngsröðinni. Þetta var hörð keppni og mikill darraðardans!

Nú eru aðrir tímar og aðrir skipstjórar. En virðingin fyrir aflasældinni er óbreytt og því myndu sjónvarpsþættir eins og þeir sem Sigtryggur fjallaði um örugglega verða vinsælir. Víkverji myndi allavega kappkosta að láta þá ekki framhjá sér fara.