Sofandi? Viljastyrkurinn einn nægir ekki ökumanni til að halda sér vakandi. Sé hann nógu syfjaður kemur að því að þreytan nái yfirhöndinni og hefur slíkt oftar en ekki valdið alvarlegum slysum í umferðinni.
Sofandi? Viljastyrkurinn einn nægir ekki ökumanni til að halda sér vakandi. Sé hann nógu syfjaður kemur að því að þreytan nái yfirhöndinni og hefur slíkt oftar en ekki valdið alvarlegum slysum í umferðinni.
Eftir Andra Karl andri@mbl.is FJÓRÐA algengasta orsök alvarlegra umferðarslysa er talin vera syfja og þreyta ökumanns.

Eftir Andra Karl

andri@mbl.is

FJÓRÐA algengasta orsök alvarlegra umferðarslysa er talin vera syfja og þreyta ökumanns. Umferðarstofa hefur af þeim sökum hrundið af stað herferð til að vekja fólk til vitundar um hættuna sem fylgir því að setjast undir stýri í slælegu ástandi. Herferðin var kynnt á málþingi í gær, auk þess sem fjallað var um hættuna sem fylgir syfju og þreytu við akstur.

Á árunum 1998-2006 urðu tíu banaslys í umferðinni af völdum þess að ökumaður sofnaði undir stýri, þ.e. rannsókn leiddi í ljós að aðalorsök slyssins var sofandi ökumaður. Í slysunum tíu létust sextán einstaklingar. Á sama tímabili voru ellefu banaslys til viðbótar þar sem ekki var hægt að úrskurða um hvort syfja eða þreyta hefði verið aðalorsök en alla vega orsakaþáttur. Samkvæmt því sem kom fram á málþinginu er jafnvel talið að syfja hafi verið orsakavaldur í fleiri tilvikum en örðugt getur verið að skera úr um slíkt.

Hærri tónlist virkar ekki

Á vefsvæðinu www.15.is sem opnað var í gær tilefni herferðar Umferðarstofu – og ber sama nafn – er hægt að finna ráðleggingar um syfju og akstur. Nafn herferðarinnar vísar í að 15 mínútna svefn er að mati sérfræðinga nægur tími til að jafna sig af syfju. Því er fremur mælt með að ökumaður stöðvið bifreið sína á öruggum stað og leggi sig í stundarfjórðung en að aka áfram syfjaður.

Meðal þess sem kemur fram á vefsvæðinu er að ekki virki að stinga höfðinu út um hliðarglugga bifreiðarinnar til að hressa sig við. Hvað þá að auka hraðann, hækka í tónlistinni, syngja eða drekka kaffi. Þá er jafnframt lögð áhersla á að ef farþegar eru með syfjuðum ökumanni í bifreiðinni bera þeir ábyrgð á að ökumaður sé vakandi við aksturinn og mælt er með að skipst sé á við aksturinn ef fleiri en einn hæfur ökumaður sé til taks.

Ýmislegt er reynt til að halda ökumönnum á tánum. Meðal annars hefur Vegagerðin verið að gera tilraunir með að sverfa litlar ójöfnur í vegabrúnir bundins slitlags, þannig að ökumenn vakni við titringinn. Þá leggja bílframleiðendur einnig sitt af mörkum og í þróun er sérstakur búnaður sem fylgist með því hvort ökumaður sé vakandi eða við það að sofna. Búnaðurinn bregst svo við ef ástæða er til.

Þrátt fyrir slíkar tilraunir er ökumaður ætíð best til þess fallinn að meta ástand sitt og ætti því að gæta að ábyrgð sinni.

Banaslys rakin til syfju ökumanna

HÆGT er að rekja nokkur dæmi um banaslys í umferðinni á undanförnum árum þar sem syfja var orsakavaldur. Hér eru aðeins nefnd þrjú dæmi:

Í febrúar árið 2000 sofnaði ökumaður jeppabifreiðar undir stýri á Kjalarnesi með þeim afleiðingum að hann ók framan á litla rútu sem í var hópur vinnufélaga á leið í óvissuferð. Samkvæmt upplýsingum frá umferðarstofu höfðu vitni séð jeppann rása til á veginum um nokkra hríð áður en slysið varð. Ökumaður jeppans lést auk tveggja í rútunni.

Í nóvember sama ár var jeppling ekið eftir Reykjanesbraut, samkvæmt framburði ökumanns sem ók á eftir jeppanum rásaði hann skyndilega, fór yfir á öfugan vegarhelming og framan á fólksbifreið. Ökumaður jeppans lést ásamt hjónum á fimmtugsaldri sem í fólksbílnum voru.

Sumarið 2005 varð banaslys í Öxnadal sem talið er að rekja megi til að ökumaður sofnaði. Þá var jeppa ekið yfir á öfugan vegarhelming, framan á fólksbifreið, með þeim afleiðingum að farþegi í jeppanum lést ásamt ökumanni fólksbifreiðarinnar. Vitni sögðu ökulag jeppans hafa verið skrykkjótt áður en áreksturinn varð.