HÆSTIRÉTTUR hefur staðfest fimm ára fangelsisdóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni á sextugsaldri, Jóni Péturssyni, fyrir frelsissviptingu, nauðgun og líkamsárás á fyrrverandi sambýliskonu sína.

HÆSTIRÉTTUR hefur staðfest fimm ára fangelsisdóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni á sextugsaldri, Jóni Péturssyni, fyrir frelsissviptingu, nauðgun og líkamsárás á fyrrverandi sambýliskonu sína. Henni hélt Jón nauðugri í íbúð sinni í hálfan sólarhring, nauðgaði og misþyrmdi.

Fyrir Hæstarétti krafðist lögmaður Jóns sýknu og því til stuðnings bar hann við að skjólstæðingur sinn hefði orðið fyrir framheilaskaða á ferðalagi um Egyptaland árið 1999. Af þeim sökum hefði andlegt ástand Jóns verið svo slæmt að hann hefði verið ófær um að stjórna gjörðum sínum.

Tveir dómkvaddir matsmenn voru fengnir til að meta réttmæti þess að Jón hefði orðið fyrir framheilaskaða og hvort sá áverki hefði haft áhrif á sakhæfi hans. „Í niðurstöðum matsmanna kemur fram að engin merki séu um framheilaskaða eða að háttsemi ákærða verði rakin til áverka af þeim toga. Mun líklegri skýring á hegðun hans og sjúklegri afbrýðisemi séu uppsöfnuð áhrif af langvarandi og mikilli áfengisneyslu,“ segir í dómi Hæstaréttar um geðheilbrigðisrannsókn matsmannanna.

Líkaminn allur marinn

Hvað varðar aðra þætti málsins var litið til niðurstöðu fjölskipaðs héraðsdóms. Þar kemur m.a. fram að brot Jóns hafi verið sérlega hrottafengin og líkami konunnar hafi borið þess merki. Á ljósmyndum mátti sjá að allur líkami hennar var marinn og áberandi línur var að finna í áverkum. Þótti það renna stoðum undir framburð konunnar um að Jón hefði lamið hana ítrekað með flötu blaði kjötaxar og búrhnífs.

Sjálfur hélt Jón því fram fyrir héraðsdómi að ekki hefði verið um einhliða ofbeldi að ræða. Hann neitaði því auk þess að hafa beitt vopnum.

Málið dæmdu hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari hjá ríkissaksóknara, sótti málið og Sveinn Andri Sveinsson hrl. varði Jón.