— Nordic-Photo/AFP
Eftir Andrés Inga Jónsson andresingi@24stundir.is Sjálfsvígsárásarmaður banaði héraðsstjóra Helmand-héraðs og fimm öðrum í suðurhluta Afganistans í gær. Á sama tíma koma út tvær skýrslur sem vara við að mikið verk sé eftir í uppbyggingu landsins.

Eftir Andrés Inga Jónsson

andresingi@24stundir.is

Sjálfsvígsárásarmaður banaði héraðsstjóra Helmand-héraðs og fimm öðrum í suðurhluta Afganistans í gær. Á sama tíma koma út tvær skýrslur sem vara við að mikið verk sé eftir í uppbyggingu landsins. Segja skýrsluhöfundar uppbyggingarstarf geta mistekist, þannig að Afganistan verði það sem þeir kalla vanburða ríki og skjól fyrir hryðjuverkamenn.

Helmand og herafli Breta

Héraðsstjórinn Pir Mohammed var við bænir í mosku í Lashkar Gah, héraðshöfuðborg Helmand, þegar sjálfsvígsárásarmaður sprengdi sig í loft upp. Auk Mohammeds létu minnst fimm lífið og 11 særðust. Zabuhullah Mujahid, talsmaður talibana, lýsti yfir að talibanar hefðu staðið að verki.

Flestir þeirra 6.000 hermanna sem Bretland hefur sent til Afganistans starfa í suðurhluta landsins og þar eru 2.500 hermenn Kanada.

Um þessar mundir sætir stjórn breska hersins mikilli gagnrýni heima fyrir vegna þeirra nýliða sem hún er að senda til Afganistans. Hefur undirbúningur þeirra verið skorinn við nögl og liðssveitir smækkaðar, en þær munu telja 550 menn í stað 650 áður.

Mikið verk fyrir höndum

Kanadíski forsætisráðherrann varar við að stuðningi Kanada við stríðið í Afganistan gæti lokið á næsta ári. Þá lýkur verkefni þeirra, sem Stephen Harper segist ekki munu framlengja nema fleiri NATO-ríki leggi baráttunni í landinu til lið.

Vekur þessi þróun áhyggjur höfunda tveggja skýrslna sem komu út í gær. Þar var mikilvægi þess að styrkja uppbyggingarstarf í Afganistan tíundað.

„Ef uppbygging í Afganistan misheppnast munu afleiðingarnar meðal annars auka óstöðugleika á svæðinu, skaða baráttuna gegn trúarofstækismönnum og tefla í voða framtíð NATO sem trúverðugu, samstilltu og málsmetandi hernaðarbandalagi,“ segir James L. Jones, einn höfunda annarrar skýrslunnar.

„Horfur á því að missa aftur stóra hluta Afganistans í hendur öfgahópa íslamista hafa breyst úr því að vera ólíklegar yfir í að vera mögulegar,“ segja skýrsluhöfundar.

Bandaríska utanríkisráðuneytið brást við með því að segja að árangur hefði náðst í landinu síðan stjórn talibana var steypt.

„Við vitum hvernig vanburða ríki í Afganistan lítur út. Það var Afganistan undir talibönum fyrir 2001,“ segir Sean McCormack, talsmaður ráðuneytisins.

„Það hefur orðið raunveruleg framþróun frá því hvernig Afganistan var fyrir sex árum. Er mikið verk fyrir höndum? Vissulega.“

Í hnotskurn
Suðurhéruð Afganistans eru miðstöð ópíumræktar, sem er mikilvæg fjáröflunarleið talibana. Á síðasta ári gerðu talibanar 140 sjálfsmorðsárásir í Afganistan, fleiri en nokkurt ár eftir að stjórn þeirra var velt úr sessi.