Á stökki Hljómsveitin Reykjavík! gaf sig alla í flutninginn og þá ekki síst söngvarinn sem fór á stökki.
Á stökki Hljómsveitin Reykjavík! gaf sig alla í flutninginn og þá ekki síst söngvarinn sem fór á stökki. — Ljósmynd/Matthas Árni Ingimarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Matthías Árna Ingimarsson mai@centrum.is Í MEIRA en tvo áratugi hefur South by South West-tónlistarhátíðin verið haldin í höfuðborg Texas-ríkis í Bandaríkjunum, Austin. Fyllist borgin af rétt um 2.

Eftir Matthías Árna Ingimarsson

mai@centrum.is

Í MEIRA en tvo áratugi hefur South by South West-tónlistarhátíðin verið haldin í höfuðborg Texas-ríkis í Bandaríkjunum, Austin. Fyllist borgin af rétt um 2.000 hljómsveitum auk tónlistarunnenda hvaðanæva að úr heiminum í um viku tíma.

Undanfarin ár hafa íslenskar hljómsveitir verið duglegar að spila á hátíðinni og árið í ár var engin undantekning þar á. FM Belfast, Reykjavík! og Hafdís Huld voru fulltrúar Íslands að þessu sinni.

FM Belfast var fyrsta hljómsveitin til að spila á fimmtudagskvöldið, í boði Great Escape-hátíðarinnar sem fram fer í Brighton á Englandi. Fjöldi fólks var mættur til að sjá tríóið spila og lét Árni Vilhjálmsson söngvari veikindi ekki aftra sér frá að skemmta áhorfendum, greinilegt að hljómsveitin var mætt til að skemmta bæði sér og gestum.

Næstir á svið voru Reykjavík! en hljómsveitin spilaði einmitt á hátíðinni fyrir ári og átti eina af eftirminnilegustu tónleikum þeirrar hátíðar, að mati undirritaðs. Sama var upp á teningnum þetta árið og voru tónleikar hljómsveitarinnar gífurlega kraftmiklir að vanda og mikil skemmtun. Ekki skemmdi fyrir hversu duglegir Bóas söngvari og Haukur gítarleikari voru við að spila á meðal áhorfenda.

Hvorki McDonald's né Starbuck's í Færeyjum

Hafdís Huld spilaði á tónleikum sem voru í boði New Musical Express-tónlistarblaðsins og var hún síðasti Íslendingurinn til að spila á hátíðinni þetta árið. Eitthvað létu tónleikagestir bíða eftir sér en tóku að tínast inn eftir að Hafdís og hljómsveit hófu leik. Hafdís var með húmorinn í lagi og var mikið hlegið á milli laga, sérstaklega þegar Hafdís lýsti leit sinni að gæludýri í formi leðurblöku og útskýrði um hvað lögin hennar fjölluðu. Síðasta lag Hafdísar var tökulag, „Material Girl“ með Madonnu sem lauk þátttöku Íslendinga á hátíðinni þetta árið.

Nágrannar okkar frá Færeyjum áttu einnig sína fulltrúa á hátíðinni. Strákarnir úr Boys In a Band sem spila á Organ ásamt Bloodgroup og Eivör í kvöld, voru mættir til að sýna Bandaríkjamönnum hvað í þeim býr. Hljómsveitin vakti mikla lukku á meðal tónleikagesta, bæði fyrir mjög kraftmikla tónlist og sviðsframkomu og með því að benda á þá staðreynd að í Færeyjum er hvorki að finna McDonald's-veitingastað né Starbuck's-kaffihús.