Þegar hringt var í Kristján Greipsson og honum tjáð að flugpunktar hans myndu fyrnast ákvað hann að láta gamlan draum rætast og heimsækja Suður-Ameríku ásamt eiginkonu sinni og vinafólki.

Eftir Maríu Ólafsdóttur

maria@24stundir.is

„Mig langaði að skoða Angel Falls, hæsta foss heims sem er í Venesúela. Hins vegar vildi þannig til að á þeim tíma sem við komum höfðu verið svo miklir þurrkar að fossinn náði ekki til jarðar og því ekkert sérlega spennandi að skoða hann,“ segir Kristján. Þess í stað hélt hópurinn í frumskógarferð þar sem þau gistu í þrjár nætur og kynntust lífi innfæddra.

Borðuðu pýranafiska

„Við fórum inn að ósum Orinoco-fljótsins þar sem maður er eins nærri náttúrunni og hægt er. Okkur var sýnt hvernig innfæddir nýta sér náttúruna með því að ná sér í vatn úr ákveðnum trjám sem höggva má í sundur og rennur silfurtært vatn úr. Einnig hvernig þeir nýta sér svokallað sáputré, en þá er laufið skafið af stönglinum og notað eins og sápa. Þá veiddum við krókódíla og pýranafiska sem við borðuðum. Þetta var ferð sem kemur til með að standa upp úr það sem eftir er,“ segir Kristján.
Í hnotskurn
Isla Margarita hefur margt sér til ágætis, meðal annars einstaklega góðan mat á ódýrum matsölustöðum og um 360 sólardaga á ári. Kristján og eiginkona hans undirbjuggu ferðina í samráði við danska ferðaskrifstofu sem útvegaði þeim hótel á Isla Margarita. Mikið dýralíf var í frumskóginum, falleg fiðrildi, páfagaukar og öskurapar. Þar gisti hópurinn í þrjár nætur og kynntist lífi innfæddra.