Kárahnjúkavirkjun | Talsverð olíumengun hefur orðið við gerð öndunarops frá Jökulsárveitugöngum (Airway 10) við Axará á Fljótsdalsheiði. Impregilo hefur unnið þar við framkvæmdir í vetur. Olíulekinn mun m.a. stafa af tæki sem lak.
Kárahnjúkavirkjun | Talsverð olíumengun hefur orðið við gerð öndunarops frá Jökulsárveitugöngum (Airway 10) við Axará á Fljótsdalsheiði. Impregilo hefur unnið þar við framkvæmdir í vetur. Olíulekinn mun m.a. stafa af tæki sem lak. Helga Hreinsdóttir hjá Heilbrigðiseftirliti Austurlands segir búið að moka burt öllum snjó þar sem olíumengunar varð vart og fara með hann að gangamunna hjá aðgöngum 2 þar sem snjórinn muni bráðna saman við frárennslið frá göngunum og fari í gegnum olíuskilju. Einnig var menguðum snjóruðningi rutt í setþró fyrir borolíu. Vart varð við mengunina fyrr í vetur og gripið til aðgerða fyrir um hálfum mánuði. „Ljóst er að nokkur olía hefur farið niður og í þessu veðri getum við lítið gert annað en að fjarlægja snjóinn. Síðan þarf að fara yfir þetta í vor þegar snjóa leysir, losa ofan af setþrónni og athuga hvort fjarlægja þurfi jarðveg,“ segir Helga.