Á sigurbraut Tracy McGrady og félagar hans í Houston Rockets hafa unnið 22 leiki í röð í NBA-deildinni
Á sigurbraut Tracy McGrady og félagar hans í Houston Rockets hafa unnið 22 leiki í röð í NBA-deildinni — AP
HOUSTON Rockets er „heitasta“ liðið í NBA-deildinni þessa stundina en liðið hefur unnið 22 leiki í röð sem er félagsmet hjá liðinu sem var sett á laggirnar árið 1967 og næst lengsta sigurhrina NBA-deildarinnar frá upphafi.

HOUSTON Rockets er „heitasta“ liðið í NBA-deildinni þessa stundina en liðið hefur unnið 22 leiki í röð sem er félagsmet hjá liðinu sem var sett á laggirnar árið 1967 og næst lengsta sigurhrina NBA-deildarinnar frá upphafi. Fáir áttu von á því að sigurganga Houston myndi halda áfram þegar ljóst var að kínverski miðherjinn Yao Ming var úr leik vegna meiðsla það sem eftir er tímabilsins. Þegar fréttirnar bárust af álagsbroti í fæti hins 2,29 m háa Ming hafði Houston unnið 12 leiki í röð og frá þeim tíma hefur liðið bætt 10 sigrum í sarpinn og trónir liðið í efsta sæti Vesturdeildar.

Sigurður Elvar Þórólfsson tók saman

seth@mbl.is

Það hefur gengið á ýmsu í herbúðum NBA-liðsins Houston Rockets í vetur þar sem lykilmenn liðsins hafa glímt við ýmis meiðsli. Tracy McGrady hefur eflaust viljað axlað meiri ábyrgð eftir að Ming meiddist en McGrady hefur sjálfur glímt við meiðsli og er hann einn „brothættasti“ leikmaður deildarinnar. Í 104:92-sigri Houston gegn LA Lakers aðfaranótt mánudags skoraði McGrady fyrstu stig sín þegar 9 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. McGrady hefur því ekk borið Houston liðið á baki sínu Sjálfskipaðir sérfræðingar um NBA-deildina vestanhafs hafa á undanförnum vikum keppst við að ráða þá gátu hvers vegna sigurganga Houston hefur haldið áfram – þrátt fyrir fjarveru eins besta leikmanns deildarinnar, Yao Ming, sem skoraði rúmlega 20 stig í leik og tók 10 fráköst. Niðurstaðan kemur ekki á óvart. Aðrir leikmenn hafa lagt meira á vogarskálarnar.

Houston tekur á móti Boston Celtics í kvöld og verður fróðlegt að fylgjast með efstu liðum Austur- og Vesturdeildar í þeirri viðureign.

Lakers á enn metið

Til þess að setja hlutina í sögulegt samhengi má benda á að Houston hefur nú þegar slegið út árangur liða á borð við Chicago Bulls sem vann 18 leiki í röð árið 1996 með leikmenn á borð við Michael Jordan og Scottie Pippen í sínum röðum. Boston Celtics náði 18 sigurleikjum í röð árið 1982 með Larry Bird fremstan í flokki.

Houston hefur nú þegar bætt árangur Bucks frá árinu 1971 þegar liðið vann 20 leiki í röð með Kareem Abduhl Jabbar og Oscar Robertsson sem aðalmenn í liðinu. Bucks varð NBA-meistari árið 1971 – í fyrsta og eina skiptið í sögu félagsins.

LA Lakers vann 33 leiki í röð frá því byrjun desember árið 1971 og fram í janúar árið 1972 en liðið varð meistari það ár. Það met verður líklega seint slegið. McGrady hefur lítið bætt við sig í stigaskorun liðsins eftir að Ming meiddist en sigurganga Houston hefur haldið áfram vegna góðrar liðsheildar.

Mutombo fær frítt í strætó

Dikembe Mutombo er enn í fullu fjöri hjá Houston en hann verður seint talið leynivopn í sóknarleik liðsins. Mutombo fær eftir nokkur ár frítt í strætó vegna aldurs en hann er 41 árs gamall. Frá því að Mutombo kom inn í NBA-deildina árið 1991 hefur hann fjórum sinnum verið valinn besti varnarmaður deildarinnar – síðast árið 2001. Mutombo er í byrjunarliði Houston og hann kann enn að verja skot frá andstæðingunum en hann skorar ekki nema um 3 stig í leik.

Luis Scola er ekki þekktasti leikmaður NBA-deildarinnar en hinn 27 ára gamli nýliði og landsliðsmaður Argentínu hefur nýtt sér tækifærið eftir að Ming helltist úr lestinni. Kannski að Sola sé leynivopnið en hann er 2,06 m hár miðherji og hafði hann skorað 9 stig að meðaltali og tekið 5,5 fráköst á meðan Ming var aðalmaðurinn. Frá því að Ming meiddist hefur Sola skorað tæp 16 stig að meðaltali og tekið 7 fráköst. Scola gæti því verið svarið við góðu gengi Houston.

Annar nýliði, Carl Landry, hefur einnig axlað meiri ábyrgð líkt og Shane Battier.

Miklar kröfur

Houston var í fimmta sæti Vesturdeildar þegar Ming meiddist en liðið trónir nú í efsta sæti deildarinnar með tæplega 70% vinningshlutfall, 46 sigrar og 20 tapleikir. Á undanförnum árum hefur liðinu ekki tekist að komast í gegnum fyrstu umferð úrslitakeppninnar í áratug. Miklar kröfur eru gerðar til Houston en liðið hefur tvívegis sigrað í NBA-deildinni, 1994 og 1995.

Í hnotskurn
» Rick Adelman tók við þjálfun liðsins sl. sumar en hann er reyndur kappi og hefur m.a. þjálfað Golden State Warriors, Portland Trail Blazers og Sacramento Kings í NBA-deildinni. Hann kom Portland tvívegis í úrslit NBA-deildarinnar.
» Miklar kröfur eru gerðar til Houston en liðið hefur tvívegis sigrað í NBA-deildinni, 1994 og 1995.